„Enn er verið að vinna í útfærslunni en ráðuneytið og MAST hafa sett sig í samband við mögulega aðila til þess að taka á móti dýrunum og sinna einangrun,“ segir Dúi Jóhannsson Landmark, upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans um stöðu á framkvæmd þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að heimila flóttafólki frá Úkraínu að flytja með sér gæludýrin sín til Íslands.
Að flytja inn gæludýr er alla jafna flókið ferli og ógerlegt frá ákveðnum svæðum, m.a. vegna þess að hér á landi fyrirfinnst hundaæði ekki. Um undanþágu er því að ræða frá skilyrðum um innflutning sem mun m.a. fela í sér að sá undirbúningur sem jafnan fer fram eftir innflutning, þ.e. bólusetningar, sýnatökur, meðhöndlun og fleira, mun fara fram eftir komuna til landsins. Þetta fyrirkomulag krefst allt að fjögurra mánaða einangrunar en tekið er mið af því hve langt dýrið er komið í undirbúningsferlinu við komuna til landsins.
Matvælaráðuneytið tók ákvörðun um undanþáguna um miðjan mars. Nú er maí genginn í garð og ekkert gæludýr þeirra tæplega 900 Úkraínumanna sem hingað hafa flúið enn komið. Hins vegar hafa að sögn Dúa hafa margar fyrirspurnir borist og lúta þær allar að innflutningi hunda og katta.
Gert er ráð fyrir að um 1 prósent fólks sem flýr stríðið í Úkraínu hafi með sér gæludýr sín á flóttanum. Á fundi yfirdýralækna á Norðurlöndum sem haldinn var fyrir nokkrum vikum var mælst til að aðildarríki ESB væru sveigjanleg við móttöku gæludýra flóttafólks frá Úkraínu. Í framhaldinu hafa mörg Norðurlandanna veitt undanþágur.
Í lok apríl höfðu 588 gæludýr flúið frá Úkraínu til Noregs ásamt eigendum sínum. Norska Matvælastofnunin hefur komið upp 51 einangrunarstöð vegna þessa með plássi fyrir samtals 1.100 dýr. Öll meðferð dýranna í Noregi, þar með taldar bólusetningar og einangrunarvistin, er greidd af ríkinu.