Núverandi ríkisstjórn myndi fá 31 þingmann miðað við könnun MMR og væri því fallin. Sjálfstæðisflokkurinn fengi flesta, eða 16 talsins. Það er sami fjöldi og flokkurinn fékk 2017.
Vinstri græn myndu tapa fjórum þingmönnum og fá sjö en Framsóknarflokkurinn stæði í stað og væri áfram með átta.
Stjórnarflokkarnir fengu 35 þingmenn í kosningunum 2017 en síðan þá hafa tveir þingmenn Vinstri grænna gengið úr skaftinu og farið í stjórnarandstöðuflokka.
Þeir flokkar sem næðu kjörnum fulltrúum inn á Alþingi sem bættu flestum þingmönnum við sig, yrði niðurstaða MMR það sem kæmi upp úr kjörkössunum, væru Samfylkingin sem myndi bæta við sig fjórum þingmönnum og Píratar og Viðreisn sem myndu bæta við sig sitthvorum þremur. Þingmannafjöldi þessara þriggja flokka myndi því fara úr 17 í 27 og stækka um um 59 prósent.
Hvorki Flokkur fólksins né Sósíalistaflokkur Íslands næðu manni inn á þing miðað við niðurstöðu MMR.
Útilokun útilokar þriggja flokka stjórn
Ómögulegt yrði að mynda þriggja flokka ríkisstjórn eftir næstu kosningar ef niðurstaða þeirra væri sú sem nýjasta könnun MMR sýnir. Þar kemur fram að næstum tíu prósent atkvæða gætu fallið niður dauð – þ.e. verið greidd flokkum sem ná ekki manni inn á þing – og það myndi ýkja árangur þeirra sjö flokka sem myndu mynda næsta Alþingi umtalsvert.
Í ljósi þess að Samfylkingin og forsvarsmenn Pírata hafa þegar útilokað að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki eða Miðflokki eftir kosningarnar 25. september næstkomandi, getur stærsti flokkur landsins, Sjálfstæðisflokkur, mest náð að mynda 31 manns meirihluta með núverandi stjórnarflokkum. Þeim vantar því einn flokk með sér til viðbótar til að ná meirihluta.
Einn möguleiki í þeirri stöðu væri að kippa annað hvort Miðflokki eða Viðreisn um borð og mynda þar með 36 til 38 manna stjórnarmeirihluta.
Fleiri möguleikar eru til staðar til að mynda fjögurra flokka stjórn. Þeir flokkar sem sitja nú saman í meirihluta Í Reykjavík (Samfylking, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn) mælast til að mynda saman með 34 þingmenn og rúman meirihluta. Framsóknarflokkurinn gæti líka komið í stað einhvers þeirra þriggja síðarnefndu og úr yrði stjórn með 33 til 35 manna meirihluta.