Frá 1. júlí, um það leyti sem ný bylgja faraldursins hófst hér á landi hefur 151 manneskja með COVID-19 þurft að leggjast inn á Landspítalann eða greinst með sjúkdóminn á sjúkrahúsinu. Nokkrar hafa þurft að leggjast inn oftar en einu sinni. Á föstudag var fjöldinn 140 og fékk Kjarninn þá þær upplýsingar að af þeim voru 63 fullbólusettar eða um 45 prósent. Átta voru bólusettar með bóluefni Janssen. Í hópnum eru nokkrir ferðamenn með óþekkta stöðu bólusetningar. Að meðaltali hafa þessir sjúklingar þurft að vera á sjúkrahúsi í 7-8 daga.
Á þessu sama tímabili (1. júlí-29. október) þurftu 28 manns á gjörgæslumeðferð að halda vegna COVID-19, nokkrir oftar en einu sinni. Átta þeirra, eða tæplega 29 prósent, voru fullbólusettir en ekki er vitað um bólusetningarstöðu fimm ferðamanna.
Aðeins einn sjúklingur sem fengið hefur örvunarbólusetningu, svo vitað sé, hefur þurft á innlögn á Landspítalann vegna COVID-19 að halda.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skrifar í nýjum pistli á covid.is að um 2-5 prósent þeirra sem sýkjast af COVID-19 leggist inn á sjúkrahús, 0,4 prósent leggst inn á gjörgæsludeild. Hann bendir á að engin vel virk lyf eru til við sýkingunni og virkni bóluefna sé einungis um 50 prósent gegn smiti þótt þau séu um 90 prósent virk til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.
Hvað samanburð við svínaflensuna sem gekk yfir kárið 2009 varðar skrifar Þórólfur að þá hafi heildarfjöldi gjörgæslurýma á Landspítala verið 20 en í dag séu þau 14.
„Af ofangreindu má því sjá að alvarleiki COVID-19 mældur í innlögnum á sjúkrahús, er um tíu sinnum meiri en svínaflensunnar 2009 auk þess eru bóluefni gegn COVID-19 minna virk, engin vel virk lyf eru til við COVID-19 og fjöldi gjörgæsluplássa er nú minni en árið 2009.
Þannig er allur samanburður á COVID-19 og svínaflensunni 2009 COVID í óhag. Baráttan við COVID-19 er margfalt erfiðari en baráttan var við svínaflensuna 2009.“
Enginn fullbólusettur einstaklingur innan við tvítugt þurfti á sjúkrahúsinnlögn að halda 1. júlí-29. október. Átján bólusettir og yngri en fimmtíu ára hafa þurft innlögn og fimm bólusettir á sextugsaldri hafa verið lagðir inn. Fjöldinn eykst er ofar dregur í aldri. Þannig hafa 13 bólusettir á sjötugsaldri þurft innlögn og sautján á áttræðisaldri. Níu manneskjur, áttatíu ára og eldri, hafa verið lagðar inn á tímabilinu.
Enginn fullbólusettur einstaklingur yngri en fjörutíu ára hefur þurft að leggjast inn á gjörgæslu vegna COVID-19. Aðeins einn bólusettur á fimmtugsaldri og sömuleiðis einn á sextugsaldri. Tveir bólusettir á aldrinum 60-69 ára hafa þurft gjörgæslumeðferð og fjórir á áttræðisaldri.
Frá því júlí hafa 6.727 manns greinst með kórónuveiruna innanlands. Um 58 prósent þeirra hafa verið fullbólusett.
Síðustu daga hefur fjöldi smita í samfélaginu aukist umtalsvert. Í morgun lágu þrettán sjúklingar á Landspítala vegna COVID-19 og sex þeirra voru óbólusettir. Tveir sjúklingar voru þá á gjörgæslu og þurftu báðir stuðning öndunarvélar. Meðalaldur þeirra sem nú liggja inni er 56 ár.
Núna eru 37 börn á aldrinum 13-17 ára með kórónuveiruna og í einangrun en mun fleiri börn á aldrinum 6-12 ára eru með sjúkdóminn eða 148. Þessi börn eru óbólusett enda enn ekkert bóluefnið samþykkt í Evrópu fyrir börn yngri en 12 ára. Sóttvarnalæknir sagði í pistli á covid.is á föstudag að Vísbendingar væru um að bólusetning barna kunni að vera áhrifaríkari en bólusetning fullorðinna til að koma í veg fyrir smit af völdum COVID-19.
Frá því ný bylgja hófst í júlí hafa þrír látist vegna COVID-19. Um helgina lést einn sjúklingur sem hafði greinst með kórónuveiruna en hann var lagður inn á Landspítalann af öðrum orsökum, segir í frétt á vef Landspítalans.
Í faraldrinum hingað til hefur sýnt sig að um 1-2 vikur eftir að smithrina byrjar fari það að birtast í tölum um innlagnir á sjúkrahús.