Frans páfi hefur samþykkt að hitta hóp fólks sem dvaldi í hinum alræmdu heimavistarskólum á vegum kaþólsku kirkjunnar í Kanada. Fundurinn mun fara fram í Vatíkaninu í lok árs. Fulltrúar samtaka frumbyggja í Kanada hafa farið fram á afsökunarbeiðni af hálfu kirkjunnar vegna ofbeldis gegn og dauða þúsunda barna á nokkurra áratuga tímabili.
Hundruð ómerktra grafa fundust fyrir nokkrum vikum í nágrenni tveggja heimavistarskóla í Kanada þangað sem börn frumbyggja voru send gegn vilja þeirra og foreldranna. Við leitina var notuð ný og sérstök gegnumlýsingartækni. Í öðrum skólanum fundust yfir 700 grafir og líkamsleifar um 215 barna til viðbótar fundust við hinn skólann. Í gær, á aðfangadegi þjóðhátíðardags Kanada, var gert kunnugt að líkamsleifar 182 einstaklinga hefðu fundist við þriðja skólann. Ljóst þykir að mun fleiri grafir barna eigi eftir að finnast við aðra slíka skóla í landinu.
Ofbeldi og ofríki kaþólsku kirkjunnar og hvítra innflytjenda gegn þjóðum frumbyggja í Kanada er löngu þekkt. Töluvert er síðan að forsætisráðherrann Justin Trudeau fór fram á afsökunarbeiðni kirkjunnar vegna þess. Aðrar kirkjustofnanir hafa þegar beðist afsökunar á hlutdeild sinni í níðingsverkinu. En sú kaþólska hefur ekki gert það.
Frá því á nítjándu öld og allt fram á tíunda áratug síðustu aldar voru yfir 150 þúsund börn frumbyggja neydd til að yfirgefa heimili sín og fara í heimavistarskóla. Sögðu landnemarnir, sem komnir voru frá Evrópu til „nýja heimsins“ þetta auðvelda aðlögun þeirra að kanadísku samfélagi en megintilgangurinn var þó sá að lama samfélögin til að ná af þeim landi og auðlindum.
Þúsundir þessara barna létust í vistinni, oft vegna smitsjúkdóma sem landnemarnir fluttu með sér í þennan heimshluta, og fjölmörg þeirra sem lifðu sneru aldrei aftur heim til foreldra sinna heldur voru gefin hvítum. Skólarnir voru um 140 talsins og langflestir þeirra voru reknir af kaþólsku kirkjunni. Reksturinn var hins vegar í takti við stefnu kanadískra stjórnvalda. Árið 2008 baðst hún afsökunar á henni.
Hinar ómerktu grafir barnanna hafa opnað gömul sár. „Það er engu að fagna,“ skrifa nú margir af ættum frumbyggja á samfélagsmiðla og eiga þar við þjóðhátíðardaginn (Kanadadaginn) sem er í dag, fimmtudag. 1. júlí árið 1867 sameinuðust þrjár nýlendur Breta í sambandsríkið Kanada. Þess er krafist að öllum hátíðarhöldum verði slegið á frest.
Nemendur skólanna sem lifðu vistina af hafa lýst hræðilegu ofbeldi af hálfu þeirra sem skólana ráku. Þeir voru beittir líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi, sveltir og vanræktir. Oft voru foreldrarnir blekktir til að senda börn sín í þá, þar myndu þau fá góða menntun og gott atlæti en þegar þau vildu svo fá börn sín heim, eftir að sjá eða heyra hvað raunverulega væri í gangi, var þeim meinað það.
Fulltrúar samtaka frumbyggja hafa hvatt Kanadamenn til að halda þjóðhátíðardaginn ekki hátíðlegan í dag en þess í stað nota daginn til að staldra við og íhuga sögu landsins, eins og hún raunverulega er, og styðja við bakið á frumbyggjum þess.
„Við verðum að viðurkenna að það er ekkert fagnaðarefni í landinu í augnablikinu,“ skrifar rithöfundurinn David A. Robertson, sem er af frumbyggjaættum, á Twitter. Hann segir orð forsætisráðherrans og ríkisstjórnar hans um að bæta stöðu frumbyggja innantóm. „Við skulum nota daginn til að íhuga hvernig við getum gert þetta land þannig að við viljum fagna því að búa hér.“
Fjölmenn samtök frumbyggja í Ontario ætla að klæðast appelsínugulu á morgun og efna til vitundarvakningar um þann smánarblett sem meðferð á frumbyggjum Kanada hefur verið í gegnum söguna. Mallory Solomon, leiðtogi eins svæðisráða frumbyggja, sagði í yfirlýsingu í vikunni að sem þjóð yrðu þeir að standa saman og hrópa skilaboð til annarra Kanadamanna. „Það er loksins verið að afhjúpa hina raunverulegu sögu Kanada,“ segir hann. „Og nú verðum við að standa saman og krefjast jafnréttis og að einhver taki ábyrgð.“
Hafa móttekið skilaboðin
Yfirvöld nokkurra borga í Kanada hafa móttekið skilaboðin og frestað hátíðarhöldum í dag.
Líklegt er talið að fleiri grafreiti sé að finna á stöðum þar sem aðrir heimavistarskólar voru. Jennifer Bone, höfðingi Sioux Valley Dakota-þjóðarinnar, segir t.d. að vísbendingar séu um að yfir 100 grafir sé að finna við einn skóla sem rekinn var í Manitoba á árunum 1895-1972.
Borgarstjóri Victoríu í British Columbia, sagði nýverið í yfirlýsingu að hætt hefði verið við öll hátíðarhöld á þjóðhátíðardaginn. Það þætti ekki viðeigandi þegar íbúar væru að syrgja.
Bæjarstjóri Pickering í Ontario, bæjar austur af Toronto, tók sömu ákvörðun. Hann hvatti íbúa til að leita sér upplýsinga og leita inn á við. Fánar við opinberar byggingar verða einnig dregnir í hálfa stöng.
Minnst fimmtíu bæir og borgir hafa ákveðið að fresta eða aflýsa hátíðarhöldum.
Trudeau forsætisráðherra hefur tekið undir með fulltrúum frumbyggja og sagt að nú sé tíminn fyrir Kanadamenn að íhuga samband sitt við frumbyggja. Græða þurfi sár og byggja samfélagið upp á þeim grunni. Eftir að upplýst var um enn eina fjöldagröfina í gær sagði hann að fundurinn neyddi alla til að horfast í augu við það óréttlæti sem frumbyggjar fyrr og nú verði fyrir.