Er ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar greindist í lok nóvember biðu stjórnvöld ríkja um allan heim ekki boðanna og hertu aðgerðir samstundis. Reyndu með ýmsum ráðum að halda veirunni úti, jafnvel með því að setja á ferðabann fólks frá löndum í sunnanverðri Afríku þar sem ómíkron var fyrst raðgreint. Viðbrögðin voru að vissu leyti skiljanleg. Fram var komið nýtt afbrigði sem hafði fleiri stökkbreytingar en áður hafði sést, sumar hverjar þær sömu og önnur afbrigði höfðu haft og nýtt til að komast hjá vörnum líkamans.
Viðbrögðin voru líka yfirdrifin. Fullljóst er orðið að ferðabönn stöðva ekki veiruna. Ómíkron hefur stungið sér niður með leifturhraða í hverju landinu á fætur öðru. Það er nú að finna í flestum ríkjum heims. Smithæfni afbrigðisins opinberaðist fljótt. Spurningum um áhrif þess á heilsu okkar var hins vegar ekki gerlegt að svara með vissu fyrst í stað.
Einkenni ómíkron eru nú sífellt að koma betur í ljós. Og niðurstöðurnar eru uppörvandi. Hvort sem litið er til tölfræði um smit, sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll í ýmsum löndum eða til nýrra niðurstaðna úr dýrarannsóknum. Þær rannsóknir benda til að ómíkron sýki efri öndunarveg en fjölgi sér ekki auðveldlega í lungnavef líkt og fyrri afbrigði hafa gert með skaðlegum afleiðingum. Allar þessar rannsóknir og öll fyrirliggjandi tölfræði virðist benda til hins sama: Ómíkron er hættuminna en delta-afbrigðið.
Hins vegar mun hin gríðarlega mikla smithæfni ómíkron valda miklu álagi á sjúkrahús. Þetta er þegar að koma á daginn, m.a. í Bandaríkjunum, þar sem COVID-sjúklingar eru farnir að fylla sjúkrahúsin.
Yfirvöld í Suður-Afríku, þar sem ómíkron uppgötvaðist fyrst í lok nóvember, tilkynntu mánuði síðar að toppi ómíkron-bylgjunnar væri náð. Á sama tíma tilkynntu stjórnvöld í Englandi að fólk sem smitast af ómíkron væri helmingi ólíklegra til að þurfa á innlögn að halda og það sem smitast af delta.
Öll þessi tölfræði er ýmsum breytum háð. Í fyrsta lagi þá hafa fjölmargir smitast af COVID-19 frá upphafi faraldursins, líklega mun fleiri en greiningar segja til um. Þótt endursýking af ómíkron sem algeng gæti fólk hafa myndað einhvers konar mótefni gegn alvarlegum veikindum. Þá eru bólusetningar auðvitað að hafa gríðarleg áhrif og ljóst að þær eru að gagnast gegn ómíkron, sérstaklega hjá þeim sem fengið hafa örvunarskammt.
Ná ekki að fjölga sér í lungum
En er þá ómíkron í raun vægara en delta, ef ekki væri fyrir mótefni og bólusetningar?
Til að svara þessari spurningu hafa vísindamenn gert rannsóknir á dýrum og einangruðum veirum á rannsóknarstofum. Michael Diamond, veirufræðingur við Washington-háskóla í St. Louis, og teymi hans sýktu hamstra og mýs með ómíkron sem og öðrum afbrigðum. Munurinn var gífurlegur: Eftir nokkra daga var magn veira í lungum dýranna sem sýkt voru með ómíkron að minnsta kosti tíu sinnum minna en þau sem sýkt höfðu verið með öðrum afbrigðum kórónuveirunnar. Fleiri sambærilegar rannsóknir annarra vísindamanna hafa leitt hið sama í ljós.
Diamond segir í samtali við vísindatímaritið Nature að SARS-CoV-2 veirurnar hafi hingað til valdið mestum skaða í lungum. Lungnasýking setji svo af stað mikið ónæmisviðbragð hjá sjúklingum sem aftur valdi vefjaskemmdum og súrefnisskorti. Hann segir því að þeim mun færri frumur í lungum sýkist þeim mun minni séu sjúkdómseinkenni.
Ómíkron kemur sér hins vegar fyrir í meira magni en fyrri afbrigði í efri hluta öndunarvegarins sem Diamond segir geta skýrt hina miklu smithæfni þess. Veiran gæti þess vegna átt auðveldara með að komast frá nefi og munni smitaðra og yfir í annað fólk. Niðurstöðurnar séu jákvæðar engu að síður þótt enn hafi hegðun ómíkron ekki verið afhjúpuð að fullu.
Eitt af því sem vísindamenn vara við að þessir eiginleikar ómíkron, að fjölga sér aðallega í efri öndunarvegi, gæti sett ung börn í meiri hættu en áður. Audrey John, sérfræðingur í smitsjúkdómum barna við Barnaspítalann í Fíladelfíu, bendir í samtali við Nature á að nefkok ungra barna sé þröngt og ungbörn andi eingöngu í gegnum nefið. Það gæti þýtt alvarlegri sjúkdómseinkenni COVID-19 hjá börnum en hjá fullorðnum. Vísbendingar um þetta sjáist þó ekki, að minnsta kosti enn sem komið er, í tölum um innlagnir barna á sjúkrahús í Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir að vísindamenn eigi enn margt eftir ólært um ómíkron segir Ravindra Gupta, veirufræðingur við háskólann í Cambridge í Bretlandi, að óttinn sem vaknaði í upphafi vegna fjölda stökkbreytinga í ómíkron, hafi verið óþarflega mikill. Af þessu megi draga þann lærdóm að það sé erfitt að meta hættu veiruafbrigða út frá raðgreiningu einni saman.
David Leonhardt, blaðamaður New York Times, bendir á í nýjasta pistli sínum að fyrstu tíðindi af mildari einkennum af völdum ómíkron frá Suður-Afríku, hafi reynst rétt. Um það vitni læknar í Bandaríkjunum sem hann hafi rætt við nýverið. Sú bylgja faraldursins sem nú gangi yfir vegna ómíkron sé allt öðruvísi en fyrri bylgjur.
Hann tiltekur þrennt sem aðskilur ómíkron frá fyrri afbrigðum:
Færri sjúkrahúsinnlagnir
Sá sem smitast af ómíkron er ólíklegri til að þurfa á innlögn að halda en sá sem smitast af fyrri afbrigðum. Hann vitnar til nýrrar rannsóknar frá Houston um að um 66 prósent minni líkur væru á því að sjúklingar smitaðir af ómíkron þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús en þeir sem smitast hefðu af delta. Fyrstu niðurstöður frá Bretandi eru á sömu lund: Fólk með ómíkron er að minnsta kosti helmingi ólíklegra til að þurfa sjúkrahúsmeðferð. Og sambærilegar niðurstöður hafa borist frá Kanada.
Engu að síður er innlögnum á sjúkrahús í Bandaríkjunum vegna COVID-19 að fjölga enda gríðarlegur fjöldi fólks nú smitaður. Í Maryland-ríki hafa. t.d. aldrei fleiri legið á spítala með sjúkdóminn en einmitt núna. Gjörgæslulæknir í New York segir í samtali við New York Times að sem betur fer séu sjúklingarnir ekki jafn veikir og áður. En rúmin eru engu að síður full af COVID-sjúklingum og það eitt og sér veldur gríðarlegu álagi. Svo gæti farið að ekki reynist mögulegt að veita öllum sem þurfa, COVID-veikum eða öðrum, læknisaðstoð. Það gæti svo aftur leitt til dauðsfalla.
Minni veikindi innlagðra
Það er ekki aðeins ólíklegra að fólk þurfi að leggjast inn á sjúkrahús vegna ómíkron, heldur eru veikindi þeirra sem leggjast inn almennt ekki jafn alvarleg og áður. Þetta skýrist af því sem áður var rakið að veiran leggst ekki eins mikið á lungun og fyrri afbrigði gerðu. Þess vegna eru hlutfallslega færri að leggjast inn á gjörgæsludeildir vestanhafs. Svipaða sögu er að segja frá Bretlandi. Þar hefur innlögnum fjölgað í mikilli ómíkron-bylgju en fjöldi gjörgæslusjúklinga hefur hins vegar staðið nokkurn veginn í stað.
Færri dauðsföll?
Leonhardt skrifar í samantekt sinni í New York Times að hingað til í faraldrinum hafi dauðsföllum farið að fjölga um þremur vikum eftir að ný bylgja hefst. Í ómíkron-bylgjunni hefur það ekki enn gerst þrátt fyrir að mánuður sé síðan hún hóf að rísa.
Engu að síður vara læknar við því að dauðsföllum gæti átt eftir að fjölga á næstu dögum og vikum ekki síst í ljósi þess að milljónir fullorðinna Bandaríkjamanna eru óbólusettir og því berskjaldaðir fyrir alvarlegum veikindum.
Þó er talið líklegt að fjöldi dauðsfalla í þessari bylgju verði mun minni en í delta-bylgjunum. Ef litið er til Suður-Afríku má sjá að mun færri dauðsföll hafa orðið þar en síðustu misseri faraldursins.
Þurfum áfram að vera á varðbergi
Þrátt fyrir allar þessar vísbendingar um að ómíkron sé ekki jafn skætt og delta vara sérfræðingar við værukærð. Tempra þurfi útbreiðsluna til að draga úr álagi á heilbrigðiskerfi. Leana Wen, fyrrverandi yfirmaður heilbrigðismála í Baltimore, skrifaði í grein í Washington Post nýverið að nú þurfi að feta milliveginn milli harðra aðgerða og athafnafrelsis. „Það er óskynsamlegt að ætlast til þess að bólusettir haldi aftur af sér við athafnir sem ástundaðar voru fyrir faraldurinn,“ skrifar Wen. „Þeirra einstaklingsbundna áhætta er jú lítil og það er hátt gjald sem greiða þarf fyrir að halda nemendum frá skólum, loka veitingastöðum og verslunum, stöðva ferðalög og viðskipti.“
Hins vegar hvetur hún alla til að fá örvunarbólusetningu og að bera grímur. Einnig hvetur hún stjórnvöld til að koma á bólusetningarskyldu. Allar þessar aðgerðir munu draga úr útbreiðslu COVID-19 og þar með úr álagi á sjúkrahús og dauðsföllum. Þeir sem hafi undirliggjandi sjúkdóma, hafi farið í líffæraígræðslu og eru í krabbameinsmeðferð, ættu áfram að fara mjög varlega.
Áður en ómíkron kom til sögunnar voru líkurnar á að 75 ára fullbólusettur Bandaríkjamaður myndi deyja úr COVID-19 svipaðar og að deyja úr inflúensu. Hin árlega inflúensa er auðvitað misjafnlega skæð á milli ára en talið er að vestanhafs deyi að meðaltali 1 af hverjum 160-200 sem hana fá.
„Ómíkron hefur breytt þessum útreikningum,“ skrifar blaðamaðurinn Leonhardt í New York Times. Af því að ómíkron er mildara afbrigði veirunnar „þá virðist COVID núna vera minni ógn við heilsu flestra eldri bólusettra einstaklinga en hin árlega inflúensa.“
Það má hins vegar ekki gera lítið úr hættunni sem eldra fólki stafar af inflúensu. Árið 2017 létust að minnsta kosti átján úr henni hér á landi. Tíu árið á eftir. Flest ár deyja innan við tíu vegna inflúensu hér á landi en á því eru þó undantekningar. Árið 2005 voru dauðsföllin 29 enda flensan mismunandi skæð frá ári til árs. Veturinn 2019-2020 létust um 20 þúsund manns úr inflúensu í Bandaríkjunum.
„Það er enn mjög góð ástæða fyrir eldra fólk að halda áfram að reyna að komast hjá COVID-sýkingu,“ segir Shelli Farhadian, læknir við Yale-háskóla, við New York Times, þar sem hætta á alvarlegum veikindum sé að líkindum enn mikil í þeim aldurshópi.
Góð tíðindi frá Íslandi
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala og prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands, færir okkur Íslendingum einnig jákvæð tíðindi eftir að hafa rýnt í tölfræði síðustu daga. „Í fyrsta lagi þá virðist það vera að af þeim sem eru óbólusettir, eru svona 2,4-2,5 prósent sem eru að leggjast inn á spítala,“ sagði hann í viðtali við Bylgjuna. „Sem er náttúrlega allt of hátt en það er hins vegar helmingi minna en var á fyrri stigum þannig að við erum að ná greinilega betri tökum held ég á meðferðinni og árangurinn á Covid-göngudeildinni að skila sér þarna.“
Þá sagði Björn Rúnar að miðað við tölfræðina þá væri innlagnartíðni hjá bólusettum ekki nema 0,2 prósent. „Það er tífalt minna heldur en hjá þeim sem eru óbólusettir.“
Með ákveðnum fyrirvara sagði hann einnig líklegt að þessi tala væri enn lægri hjá þríbólusettum. Þetta væru sláandi, en ánægjulegar niðurstöður, samanborið við fyrri bylgjur.
„Þeir sem eru þríbólusettir eru lægstir þannig að líklega er innlagnartíðnin hjá þríbólusettum enn lægri heldur en þetta. Þetta eru mjög sláandi niðurstöður en ánægjulegt og þetta er töluvert minna en var hjá bólusettum í fyrri bylgjunum, eiginlega tífalt lægra innlagnarhlutfall. Þetta er miklu miklu lægra heldur en hefur verið að birtast erlendis þannig að við erum greinilega að gera eitthvað gott hérna á Íslandi,“ sagði Björn Rúnar.
Af 5.300 manns sem hefðu greinst smitaðir frá því 29. desember hefðu aðeins ellefu þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Af þeim 2.000 óbólusettum sem greinst hefðu á sama tímabili hefðu hins vegar 52 þurft sjúkrahúsinnlögn.
Langstærsti hluti þeirra sem þarf á gjörgæslu að halda vegna COVID-19 væri óbólusettur.