Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það hafi verið rétt ákvörðun að mynda fordæmalausa ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokki árið 2017. Honum hafi líka fundist það rétt að láta reyna á endurnýjað stjórnarsamstarf eftir síðustu kosningar. „Það var ekkert sjálfsagt. Það var á köflum mjög erfitt að gera stjórnarsáttmálann. Og á einum tímapunkti hélt ég að við myndum standa upp frá þessu og bara hætta þessu.“
Af því varð þó ekki og Bjarni segir að það hafi byggt á því að leiðtogar flokkanna geti talað saman og fundið leiðir til að leysa úr málum. „Við munum halda áfram að gera það.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegu viðtali við Bjarna í Dagmálum á mbl.is.
Þar segist Bjarni vera meira hrifinn af tveggja flokka stjórnum en fjölflokkastjórnum. Eðlilegra væri að Sjálfstæðisflokkurinn starfaði með flokkum sem stæðu honum nær málefnalega. Sú staða sem upp sé komin í íslenskum stjórnmálum, þar sem tveggja flokka stjórnir eru ómögulegar, átta flokkar eru á þingi og einn til viðbótar hafi ekki verið langt frá því að ná inn, geri slíkt þó ómögulegt.
Í viðtalinu segir Bjarni að það sé hægt að ímynda sér að erfiðar aðstæður komi upp í stjórnarsamstarfinu ef yfirvofandi kjarasamningaviðræður í haust gangi illa og áherslur stjórnarflokkanna um viðbrögð við þeim fari ekki saman. „„En í augnablikinu er það ekki að gerast og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnismaður. Ég hef trú á stjórninni og getu hennar til að leysa flókin vandamál.“
Sér ekki hvað ráðuneytið hafi getað gert öðruvísi
Andrés Magnússon, þáttastjórnandi Dagmála og fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, spurði Bjarna um stjórnsýsluúttekt sem Ríkisendurskoðun vinnur um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og hvort haustið yrði „ekki bara undirlagt af þeirri vitleysu“.
Bjarni sagðist bíða rólegur eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. „Það skiptir mig í sjálfu sér engu máli hvort hún komi um miðjan mánuðinn, í lok mánaðar eða í byrjun september. Umræðan fer bara fram þegar það gerist.“
Hann hafi hugsað mikið um framkvæmdina á bankasölunni frá því að þingið lauk störfum og ekki séð margt í henni sem ráðuneyti hans bar ábyrgð á sem þau hefðu viljað gera öðruvísi. „„Við höfum bent á nokkra framkvæmdarlega þætti sem eflaust koma fram í skýrslunni. En við verðum að sjá hver megin niðurstaðan verður þar.“
Ríkisstjórnin brást við gagnrýni á söluna með því að boða að Bankasýsla ríkisins, sú stofnun sem heldur á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, yrði lögð niður.
Bjarni sagðist vera búinn að vera með það mál til skoðunar og að hann sé að undirbúa að fara með það inn í ráðherranefnd um efnahagsmál, þar sem hann situr ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Það gæti gerst eftir einhverjar vikur. „Þar er maður að hugsa um það að á sínum tíma var hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum sérstaklega komið fyrir í Bankasýslunni. En ríkið á auðvitað fjöldann allan af öðrum hlutabréfum. Það er ekkert sérstakt sem kallar á það til lengra tíma litið að ákveðin tegund hlutabréfa ríkisins sé geymd í þessari tegund stofnunar á meðan að önnur eru til dæmis inni í ráðuneytinu. Mér finnst kominn tími til að fara faglega yfir það hvernig ríkið heldur á þessum hlutabréfum og hagar sér sem eigandi. Meðal annars varðandi skipanir í stjórnir.“
Ríkið sem eigandi hlutabréfanna mætti gá betur eftir þessum eignarhlutum og setja meiri viðmið og kröfur. Þar eigi hann við að stjórnmálaflokkar og þingið geti ekki skipað hvern sem er í stjórnir, heldur að það verði að mæta ákveðnum hæfniskröfum.
Vill áfram selja hluti í ríkisbönkum
Í sömu yfirlýsingu og boðaði niðurlagningu Bankasýslu ríkisins, sem send var út 19. apríl af formönnum stjórnarflokkanna, þeim Bjarna, Katrínu Jakobsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni, kom einnig fram að ekki yrði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka „að sinni“. Þar sagði ennfremur: „Þegar ný löggjöf liggur fyrir mun ákvörðun um mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verða tekin fyrir á Alþingi. Ríkisstjórnin leggur hér eftir sem hingað til áherslu á óbreytt eignarhald ríkisins á hlut sínum í Landsbankanum.“
Ríkissjóður á sem stendur 42,5 prósent hlut í Íslandsbanka.
Bjarni sagði í viðtalinu við Dagmál að hann yrði áfram sem áður talsmaður þess að ríkið dragi úr eignaraðild sinni í Íslandsbanka, þegar markaðsaðstæður væru góðar og umræðum og uppgjöri við skýrslu Ríkisendurskoðunar væri lokið. „En mínar væntingar standa til þess að við getum síðan í framhaldinu haldið áfram að selja ríkið úr Íslandsbanka þar sem við erum orðin minnihlutaeigandi. Og mér finnst nokkuð ljóst að við munum fara leið markaðarins. Það var kannski helst það sem var gagnrýnt síðast. Að það hefði ekki verið opið fyrir alla að taka þátt.“
Helst myndi hann ekki ekki bara vilja losa ríkið úr eignarhluta í Íslandsbanka heldur líka selja hlut í Landsbankanum þegar fram í sækir, þótt hann væri þeirrar skoðunar að ríkið geti vel farið þar með ráðandi hlut. „Þó ekki væri nema að tryggja höfuðstöðvar kerfislega mikilvægs banka á Íslandi.“
Ríkið á sem stendur 98,2 prósent hlut í Landsbankanum.