Grísk stjórnvöld, með Syriza flokkinn í broddi fylkingar, vilja að Grikkir verði áfram hluti af evrusvæðinu en að kröfur um aðhald í ríkisrekstri verði „tónaðar niður“ og raunhæfar til lengdar. Mikilvægt sé að ná samkomulagi um framhald lánafyrirgreiðslu frá Evrópusambandinu, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem allra fyrst.
Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, sagði í samtali við Bloomberg fréttaveituna, sem fjölmiðillinn Quartz vísar til í umfjöllun sinni, að horft sé til þess að ná samkomulagi um framhald lánafyrirgreiðslu til landsins, og forsendur hennar, fyrir næstkomandi föstudag, en þá hittast leiðtogar Evrópusambandsríkjanna í Riga, og funda í tvo daga. Tsipras segir að umboð stjórnvalda frá Grikkjum sé skýrt; grísk stjórnvöld eigi að vera áfram hluti af evrusvæðinu, án þess að þurfa að ráðast í harðar sparnaðaraðgerðir í ríkisfjármálum sem bitni á innviðum landsins og efnhagslegum styrk þess. Þessi orð þykja sýna, að Tsipras og félagar séu tilbúnir að gefa eitthvað eftir, til þess að mæta þeim bráðavanda sem gríska hagkerfið er nú komið í, eftir að vond staða landsins versnaði enn meira.
Björgunarpakkinn sem Grikkir hafa unnið eftir, eftir samkomulagi við kröfuhafa og alþjóðastofnanir ESB og AGS, frá árinu 2012, er upp á samtals 240 milljarða evra. Mikið fjárstreymi hefur verið frá Grikklandi að undanförnu, eins og þýski bankinn Deutsche Bank tók saman í minnisblaði, og hefur fjárhagur landsins veikst mikið því samhliða.