Undanfarna daga hefur verið sagt frá því í fréttum að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafi vonir um að geta kynnt afléttingar sóttvarnaráðstafana fyrr en áætlað hefur verið. Í umfjöllunum fjölmiðla var vísað til síðasta minnisblaðs Þórólfs Guðnasonar, þar sem afléttingar voru teiknaðar upp í skrefum.
Haft var eftir ráðherra á RÚV í gær að næstu afléttingar sem áætlaðar höfðu verið 24. febrúar gætu færst fram um jafnvel tvær vikur og tíðinda væri að vænta á föstudag, eftir ríkisstjórnarfund.
Reglur um einangrun og sóttkví á útleið?
Það sem kannski einna helst hefur vakið athygli í þessum fréttum er það að á meðal aðgerða sem sóttvarnalæknir dróg upp í sínu nýjasta minnisblaði frá 26. janúar var það að reglur um bæði einangrun og sóttkví myndu falla í þeim aðgerðum sem áætlaðar hafa verið 24. febrúar.
Í dag eru 10.100 manns í einangrun og 8.763 í sóttkví samkvæmt opinberum tölum, eða allnokkur prósent þjóðarinnar.
Það er svipað og verið hefur undanfarnar vikur, á meðan ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hefur þotið á milli landsmanna, án þess þó blessunarlega að valda alvarlegum veikindum hjá mörgum og þar með engu sligandi álagi á heilbrigðiskerfið.
Upplýsingar hafi ekki þýðingu nema fyrir endanlega ákvörðun
Kjarninn óskaði eftir frekari skýringum á þessu efnisatriði í minnisblaðinu frá sóttvarnalækni og spurði blaðamaður hvort einhver hængur væri á þessu orðalagi, sem ekki hefði verið útskýrður til fulls í hans síðasta minnisblaði, eða hvort það yrði einfaldlega svo að þeir sem greindir væru með COVID-19 gætu valsað um bæinn og farið á mannamót að vild, eftir að reglur yrðu felldar niður.
Þórólfur svaraði skriflegri fyrirspurn Kjarnans um þetta efni einfaldlega með þeim orðum að „endanlegt minnisblað“ væri ekki farið til heilbrigðisráðherra, en eins og sagt var frá í fréttum í gær er sóttvarnalæknir með minnisblað í smíðum um næstu afléttingar.
Blaðamaður ítrekaði þá að verið væri að spyrja um efnisatriði í hans fyrra minnisblaði og kom því á framfæri við sóttvarnalækni að það hefði „þýðingu að fá frekari útskýringu á því hvað afnám reglna um einangrun og sóttkví felur í sér.“
Sóttvarnalæknir er þó ekki á þeirri skoðun. „Upplýsingarnar hafa ekki þýðingu nema fyrir endanlega ákvörðun,“ segir í skriflegu svari hans við fyrirspurn Kjarnans.
Skýrist á föstudag
Það er því enn nokkuð óljóst hvað nákvæmlega felst í því að fella niður allar núverandi reglur um einangrun og sóttkví og hvort einhver ný tilmæli fyrir þá sem eru með veiruna muni leysa reglurnar af hólmi.
Einnig er ekki ljóst hvort niðurfelling reglnanna verði yfir höfuð á meðal þeirra afléttinga sem sóttvarnalæknir kemur til með að leggja til í næsta minnisblaði sínu til ráðherra um afléttingar.
Um það fær almenningur væntanlega að heyra meira um á föstudag, að ríkisstjórnarfundi loknum, eins og venjan er.