Evrópa ætti að sameina hernaðarlega krafta sína til að verja álfuna fyrir ágangi Rússa. Þetta leggur Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, til í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag sem kom út í gær.
„Það mundi sýna Rússum að okkur sé alvara í verndun gilda Evrópusambandsins,“ sagði Juncker meðal annars í viðtalinu. „Slíkur her [sameinaður Evrópuher] mundi hjálpa okkur að búa til sameiginlega utanríkisstefnu og samþætta þjóðvarnaráætlun, auk þess að takast sinna skyldum Evrópu í heiminum.“
Juncker sagði NATO einfaldlega ekki duga því í varnarbandalaginu væru ríki sem ekki væru í Evrópusambandinu (ESB). Sameiginlegur Evrópuher mundi senda mikilvæg skilaboð til umheimsins. Frá þessu er meðal annars greint á vef Reuters.
ESB býr þegar yfir sveitum sem hægt er að kalla út með skömmum fyrirvara en slíkar sveitir hafa aldrei verið kallaðar út í stríði eða átökum. Leiðtogar Evrópusambandsins hafa sagst vilja auka hernaðarlega möguleika sambandsins en slíkt hefur mætt andstöðu meðal Breta.
Bretar telja stærra hernaðarhlutverk ESB grafa undan NATO en Þjóðverjar hafa þegar tekið undir hugmynd Junckers. Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í viðtali við þýska útvarpsstöð að „framtíð okkar sem Evrópubúa felur í sér að á einhverjum tímapunkti verði Evrópuher.“
Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) hefur þegar sagt hugmyndir um Evrópuher vera „hræðilegan fyrir Bretland.“ Mike Hookem, talsmaður UKIP í varnarmálum, hefur bent á Evruna sem dæmi: „Við höfum öll séð hversu illa ESB hefur klúðrað evruhagkerfinu, svo hvernig getum við ímyndað okkur að treysta þeim fyrir vörnum Bretlands.“