Innanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hafa samþykkt samkomulag sem mun deila 120 þúsund hælisleitendum niður á ríki sambandsins. Fólkið er að mestu leyti staðsett í Grikklandi, á Ítalíu og í Ungverjalandi núna.
Rúmenía, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland greiddu atkvæði gegn samkomulaginu. Finnar sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Öll önnur ríki greiddu atkvæði með samkomulaginu á fundinum í dag. Það er mjög óvenjulegt að mál af þessu tagi sé ákveðið með meirihluta atkvæða, frekar en með samróma ákvörðun, sem er venjan þegar kemur að málum sem varða fullveldi ríkjanna, að því er BBC segir frá.
Nú þurfa leiðtogar ríkjanna að samþykkja samkomulagið á fundi sem þeir halda í Brussel á morgun. Áætlunin um flutning fólksins mun koma til framkvæmdar á næstu tveimur árum.
Innanríkisráðherra Tékklands, Milan Chovanec, sagði á Twitter-síðu sinni eftir fundinn í dag að fljótlega kæmi í ljós að keisarinn væri nakinn, og að heilbrigð skynsemi hefði tapað.