Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hyggst tilkynna nafnabreytingu samfélagsmiðilsins á árlegri ráðstefnu Facebook, Connect, sem fer fram á fimmtudaginn í næstu viku, 28. október. Nýja nafnið gæti þó verið afhjúpað fyrr samkvæmt heimildum tæknimiðilsins The Verge. Samfélagsmiðillinn Facebook eins og við þekkjum hann mun líklega ekki breytast mikið. Nafn fyrirtækisins, Facebook, er það sem breytist en samfélagsmiðillinn Facebook fer undir hatt fyrirtækisins líkt og Instagram, Whatsapp og Oculus, smáforrit og samfélagsmiðlar sem eru í eigu Facebook.
Það er ekkert launungarmál að Facebook er í krísu. Gagnaleki, bilanir og ítrekaðar vitnaleiðslur Zuckerberg og annarra starfsmanna fyrirtækisins fyrir þingnefnd öldungadeildarþings Bandaríkjanna hafa veikt stöðu fyrirtækisins. Nú er staðan sú að Facebook vill ekki lengur vera þekkt fyrst og fremst sem samfélagsmiðill og af þeirri neikvæðu athygli sem miðillinn hefur fengið heldur vill fyrirtækið einblína á framtíðina. Samkvæmt Zuckerberg felst framtíðin í metaverse.
Metaverse: Sambland af raunveruleika og sýndarveruleika þar sem allt er mögulegt
En hvað er þetta metaverse sem forstjórinn er svona spenntur fyrir? Við því er í raun ekki eitt einfalt svar. Í viðtali í júlí sagði Zuckerberg að á næstu árum muni almenningur hætta að líta á Facebook sem samfélagsmiðlafyrirtæki og þess í stað líta á Facebook sem metaverse-fyrirtæki.
Hugtakið Metaverse á rætur sínar að rekja í vísindaskáldsöguna Snow Crash eftir Neal Stephensen sem kom út árið 1992. Metaverse vísar í samspil raunveruleika og sýndarveruleika. Facebook sér metaverse fyrir sér sem veröld á netinu þar sem notendum er nánast ekkert óviðkomandi. Í metaverse er hægt að sinna vinnu, leikjum og samskiptum í sýndarveruleika. Metaverse „verður það sem skiptir máli, og ég held að þetta verði stór hluti af þróun internetsins eftir að það varð aðgengilegt í símum,“ sagði Zuckerberg í samtali við The Verge í sumar.
Þróunin er hafin. Í dag starfa um 10 þúsund starfsmenn Facebook að uppbyggingu sem snýr að metaverse, meðal annars við þróun og hönnun á sýndarveruleikagleraugum sem verða ómissandi hluti af metaverse og Zuckerberg er því sannfærður um að gleraugun verði jafn ómissandi og snjallsímar áður en langt um líður. Ein helsta áskorun Facebook verður án efa að sannfæra notendur um ágæti metaverse, hugtaks sem hefur í raun ekki fengið merkingu meðal almennings enn sem komið er.
Fakebook eða Horizon?
Zuckerberg hefur lítið viljað gefa upp um nafnabreytinguna en ýmsar getgátur eru komnar á kreik, ekki síst á Twitter, helsta samkeppnisaðila Facebook, þar sem „Fakebook“ eða „Faceplant“ virðast falla best í kramið.
Fakebook https://t.co/M2dVnjVavk
— Jai Cabajar #NeverAgain (@jaicabajar) October 20, 2021
Facebook has a grand plan for fixing itself- Mark Zuckerberg is going to rebrand the company with a new name. Try ‘Faceplant’, that works. pic.twitter.com/oUEm15Ui6k
— Mike Sington (@MikeSington) October 20, 2021
Nöfn sem þykja líklegri að verði fyrir valinu eru nöfn á borð við Virtuel, Connect og Horizon. Það síðastnefnda er heiti sem Facebook hefur unnið með í tengslum við sýndarveruleika síðustu misseri. Biðin eftir nýja nafninu ætti ekki að vera löng ef rétt reynist að Zuckerberg ætli að tilkynna nafnið í síðasta lagi á ráðstefnunni Connect, árlegri ráðstefnu Facebook, næstkomandi fimmtudag.