Samkvæmt nýlegum fjárhagsupplýsingum frá flugfélögunum SAS, Flyr og Norwegian hafði omíkron-bylgja kórónuveirunnar töluvert slæm áhrif á rekstur þeirra. Norwegian náði þó að auka starfsemi sína á síðasta ársfjórðungi, en samkvæmt Flyr varð hrun í sölu í desember. Lítil eftirspurn hefur svo leitt til lausafjárvandræða hjá SAS, en sérfræðingar telja félagið þurfa að fara í fjárhagslega endurskipulagningu til að forðast gjaldþrot.
Eiginfjárvandi hjá SAS
Samkvæmt norska viðskiptamiðlinum Dagens Næringsliv hefur heimsfaraldrinum reynst SAS sérstaklega erfiður, ef miðað er við önnur flugfélög. Í síðustu viku tilkynnti félagið svo að það myndi flýta birtingu á árshlutauppgjörinu sínu fyrir nóvember, desember og janúar, án þess að gefa neinar frekari skýringar á því.
Væntingar eru um að flýtingin sé vegna slæmra rekstrarniðurstaða yfir vetrarmánuðina, en norska fjármálafyrirtækið DNB Markets gerði ráð fyrir að félagið myndi skila taprekstri sem næmi 1,9 milljörðum sænskra króna. Það jafngildir rúmum 25 milljörðum íslenskra króna.
Enn fremur tilkynnti DNB Markets í greiningu sinni, sem birtist að morgni miðvikudags, að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins væri óumflýjanleg. Í kjölfarið hrundi hlutabréfaverð þess, en það er núna fjórðungi lægra en það var fyrir þremur dögum síðan.
Erfið byrjun hjá Flyr
Hlutabréfaverðið hjá norska flugfélaginu Flyr tók einnig fimm prósenta dýfu eftir að það birti ársfjórðungsuppgjörið sitt í vikunni, en samkvæmt því hefur nýja veiruafbrigðið og meðfylgjandi ferðatakmarkanir reynst félaginu þungbært.
Flyr er nýstofnað félag og hóf rekstur um mitt síðasta ár. Það sérhæfir sig í innanlandsflugi, en flýgur einnig til vinsælla áfangastaða í Evrópu. Framan af hefur reksturinn þó reynst erfiður, en félagið þurfti að auka hlutafé sitt um 250 milljónir norskra króna, eða um 3,5 milljarða íslenskra króna, í síðasta mánuði til að halda sér á floti.
Félagið er þó enn staðráðið í að auka starfsemi sína og stefnir að því að tvöfalda flugvélaflotann sinn, úr sex vélum í tólf, í sumar. Á yfirstandandi ársfjórðungi er þó enn gert ráð fyrir taprekstri, en sérfræðingar telja að hann muni ná 150 milljónum norskra króna, eða 2,1 milljarði íslenskra króna.
Bókhaldslegur hagnaður hjá Norwegian
Nýbirtar rekstrartölur flugfélagsins Norwegian voru nokkuð betri, þótt faraldurinn hafi líka sett sinn svip á þær. Samkvæmt þeim náði félagið að auka fjölda seldra flugsæta úr 2,5 milljónum á þriðja ársfjórðungi í 3,1 milljón á síðasta fjórðungi. Á sama tíma jókst einnig sætanýtingin úr 73 prósentum í 77 prósent.
Norwegian réðst í fjárhagslega endurskipulagningu í fyrra, þegar félagið var á barmi gjaldþrots. Þar voru 140 milljarðar norskra króna, eða tæplega 2.000 milljarðar íslenskra króna, skuld endurskipulögð, en auk þess sagði félagið upp þrjá fjórðu af starfsfólki sínu og stöðvaði notkun 100 flugvéla sem það hafði tekið á leigu. Eftir stóðu þrjú þúsund starfsmenn og 51 flugvéla floti, en búist er við þær muni verða 70 talsins í sumar.
Vegna þessarar endurskipulagningar skilaði Norwegian bókhaldslegum hagnaði í fyrra, en rekstarniðurstaða þess var þó neikvæð upp á 263 milljónir norskra króna, eða 3,7 milljarða íslenskra króna.
Fjárfestar hafa hingað til ekki tekið vel í þessar niðurstöður, en hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um tvö prósent eftir að þær voru birtar. Þó hefur verðið hækkað töluvert á síðustu vikum, en það er nú 15 prósentum hærra en það var um síðasta sumar.