Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að í málefnum flóttafólks færi „best á því að tala varlega“, tala af virðingu um fólk og tala með þeim hætti að „við höfum frið að leiðarljósi því að friðurinn er undirstaða þess að við getum áfram búið í lýðræðissamfélögum og búið við velferð sem við viljum öll halda áfram að byggja upp“.
Hann teldi það jafnframt mjög mikilvægt að Íslendingar sýndu samstöðu með flóttafólki frá Úkraínu og tækju þeim með opnum örmum sem þarna búa við aðstæður sem „við öll eigum mjög erfitt með að setja okkur inn í“.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata spurði ráðherrann meðal annars hvort ekki bæri að mótmæla orðum Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um málefni flóttafólks af hálfu stjórnarliða. „Á þetta hundaflaututal að fá að viðgangast algjörlega óáreitt af stjórnarliðum?“ spurði hún.
Má þetta bara í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur?
Þórhildur Sunna hóf fyrirspurn sína á því að benda á að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefði lýst yfir sérstökum áhyggjum af því að flóttafólk annars staðar frá en frá Úkraínu misnotaði sér þær tilslakanir sem nágrannaríki Úkraínu hefðu gert á landamærum sínum til að komast yfir landamærin. Vísaði hún í orð ráðherrans þar sem hann sagði að mörg lönd hefðu áhyggjur af því að fólk sem hefði ekki „heilindin með sér“ væri að nota þetta tækifæri til að komast inn í Evrópu.
„Sami ráðherra hefur ekki einungis efast um heilindi þess flóttafólks sem nú leggur á sig mikið erfiði við að komast frá Úkraínu og í skjól, hann beinir einnig sjónum sínum og spjótum að flóttafólki sem fyrir er á Íslandi og sakar það um að teppa veg Úkraínumanna í skjól til Íslands, raunar að það sé að koma í veg fyrir að hægt sé að taka við flóttafólki til Íslands frá Úkraínu. Hann vekur athygli á neyðarástandi hjá Útlendingastofnun og kyndir undir andúð gagnvart þessum hópum, egnir þá upp hvor á móti öðrum,“ sagði hún.
Þá sagðist hún hafa séð viðtal við Guðmund Inga þar sem hann héldi því til haga að Útlendingastofnun myndi ekki standa í vegi fyrir því að tekið yrði á móti flóttafólki frá Úkraínu.
„Ég tek því sem svo að ráðherra sé ósammála fullyrðingum hæstvirts dómsmálaráðherra, að minnsta kosti hvað það varðar að hér sé verið að teppa þjónustu. Ég er ekki að óska eftir afstöðu ráðherrans gagnvart þessum staðhæfingum, ég óska eftir því að ráðherrann tjái sig um það þegar æðsti yfirmaður útlendingamála, sem deilir þessum verkefnum með hæstvirtum félags- og vinnumarkaðsráðherra, tjáir sig með þessum hætti um þessa viðkvæmu hópa eins og raun ber vitni. Ber ekki að mótmæla honum af hálfu stjórnarliða? Á þetta hundaflaututal að fá að viðgangast algjörlega óáreitt af stjórnarliðum? Má þetta bara í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur?“ spurði hún eins og áður segir.
Mikilvægt að sýna samstöðu með flóttafólki frá þessu svæði
Guðmundur Ingi byrjaði á því að þakka Þórhildi Sunnu fyrir fyrirspurnina og fyrir að taka upp málefni fólks á flótta frá Úkraínu „út af þessu hörmulega stríði sem þarna geisar og við erum öll sammála um að sé hræðilegt fyrir ekki bara það fólk sem þarna býr heldur í rauninni fyrir það hvernig það ógnar heimsfriði“.
Hann sagðist hafa lýst því skýrt yfir, sem og utanríkisráðherra, forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og fleiri ráðherrar, að Ísland myndi taka á móti fólki frá Úkraínu.
„Það er mergurinn málsins og við það munum við að sjálfsögðu standa. Ég tel það mjög mikilvægt að við sýnum samstöðu með flóttafólki frá þessu svæði og með öðrum Evrópuríkjum þegar þau stíga fram og taka á móti fólki, taka með opnum örmum á móti þeim sem þarna búa við aðstæður sem við öll eigum mjög erfitt með að setja okkur inn í. Ég er þeirrar skoðunar, svo að ég komi nú að því að svara spurningu háttvirts þingmanns, að í svona málum þá fari best á því að tala varlega, tala af virðingu um fólk og tala með þeim hætti að við höfum frið að leiðarljósi því að friðurinn er undirstaða þess að við getum áfram búið í lýðræðissamfélögum og búið við velferð sem við viljum öll halda áfram að byggja upp,“ sagði ráðherrann.
Ætlar ráðherrann að rýma húsnæði til að koma „réttu flóttamönnunum“ fyrir?
Þórhildur Sunna kom í pontu í annað sinn og sagði að það að tala varlega væri kannski frekar veik afstaða gagnvart þessari orðræðu sem hefði verið í gangi, „svo ég segi ekki meira“.
„Ég fordæmdi þessi ummæli og sagði þau með ógeðfelldari atriðum í útlendingapólitík á Íslandi sem ég hefði upplifað. En jú, það er hægt að biðja ráðherrann um að tala varlega um málaflokk sem hann fer fyrir. Ráðherrann sagði einnig að hann væri að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu að flóttafólk frá Afganistan, Sýrlandi og fleiri stríðshrjáðum ríkjum væri að teppa aðstöðuna fyrir Úkraínumönnum. Hann ætli að koma með nýtt útlendingafrumvarp sem muni leysa þessi brýnu mál fyrir okkur,“ sagði hún.
Benti hún á að það væri í verkahring ráðherrans að sinna húsnæðismálum hælisleitenda og að nýbúið væri að flytja þann viðkvæma flokk til hans. Spurði hún því hvort hann myndi standa fyrir því að rýma húsnæði annarra flóttamanna en þeirra frá Úkraínu til að hægt væri að koma „réttu flóttamönnunum“ fyrir.
Ætlar að ræða frumvarpið þegar ferlið væri komið lengra
Guðmundur Ingi svaraði og sagðist ætla að vera „alveg skýr“ með það að það væri ekki verið að teppa eitt eða neitt þegar kæmi að móttöku fólks frá Úkraínu.
„Við munum ekki láta málefni annarra hópa eða hvernig staðan er hjá Útlendingastofnun hafa áhrif á það að við tökum á móti fólki frá Úkraínu. Það væri ekki mikil mannúð í því,“ sagði hann.
Hvað varðaði drög að frumvarpi dómsmálaráðherra sem Þórhildur Sunna nefndi þá væri það í samráðsgátt stjórnvalda – reyndar væri búið að leggja það þar fram.
„Ég hef ekki séð frumvarpið eftir að það kom úr samráði og við höfum ekki farið yfir þann hluta sem snýr að mínu ráðuneyti. En það munum við að sjálfsögðu gera og frumvarpið væntanlega koma síðan fyrir ríkisstjórn eins og ferlið er og við skulum ræða málin þegar þau verða komin lengra,“ sagði hann að lokum.