Farþegar sem koma frá þeim eða dvalið hafa á þeim svæðum í Evrópu þar sem 14 daga nýgengi COVID-19 smita er yfir 500 á hverja 100.000 íbúa þurfa að fara í sóttvarnarhús og dvelja þar á milli fyrstu og annarrar skimunar á landamærum, nema þeir hafi vottorð um bólusetningu eða fyrra smit. Reglugerð um þetta á að taka gildi 1. apríl, samkvæmt því sem fram kemur á vef stjórnarráðsins.
Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við bæði Ríkisútvarpið og Bylgjuna eftir ríkisstjórnarfund í dag. Á ríkisstjórnarfundi dagsins var einnig samþykkt að fara að ráðum sóttvarnalæknis um að byrja að taka sýni úr börnum fæddum eftir árið 2005 á landamærum, en það hefur ekki verið gert til þessa.
Breytingarnar á landamærunum lúta að þeim svæðum eða ríkjum í Evrópu þar sem faraldurinn er í hvað hæstum hæðum, en þau svæði eru merkt eldrauð á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu, ECDC.
Einnig munu þessar breytingar eiga við um grá svæði á kortinu, þar sem upplýsingar um nýgengi skortir.
Stórir hlutar Evrópu eru dimm- eða eldrauðir að lit á nýjasta korti ECDC, sem sjá má hér að ofan. Meðal annars eru það stórir hlutar Svíþjóðar, Póllands, Ungverjalands, Tékklands og Ítalíu og sömuleiðis svæði í Norður-Frakklandi umhverfis París.
Sóttvarnalæknir lagði til að flestir eða allir færu í sóttvarnahús
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til í minnisblaði sínu að víðtækt samráð yrði haft við landamæraverði, lögreglu, almannavarnir, Sjúkratryggingar og Rauða krossinn um hvort hægt væri að skylda flesta eða alla þá sem hingað ferðast til að dvelja í sérstöku húsnæði á meðan sóttkví eða einangrun stæði.
„Í þessu húsnæði yrði komið á öflugu eftirliti með að allir haldi þær leiðbeiningar sem í gildi eru. Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að í ljós hefur komið að í mörgum tilfellum er meðferðarheldni í sóttkví hjá þeim sem hingað koma ábótavant. Þetta hefur leitt til frekari smita og jafnvel til lítilla hópsýkinga sem auðveldlega hefðu getað þróast í stærri faraldra,“ segir í minnisblaði Þórólfs.
Leiðrétting: Þegar fréttin fór fyrst í loftið sagði að Bretland væri grátt svæði á kortinu og allir þaðan yrðu skikkaðir í sóttvarnahús. Bretland er vissulega grátt, en er þó ekki í þeim gráa flokki þar sem upplýsingar um nýgengi skortir.
Hvað Bretland varðar er enn ferðabann í gildi þar til 26. mars, en þá verður að óbreyttu opnað á að bólusettir Bretar geti ferðast til Íslands.