Heimsbyggðin hefur haft augun á skipinu Ever Given upp á síðkastið og strandi þess í Súes-skurðinum. Hið tæplega 400 metra langa skip sat þar fast í um sex sólarhringa. Efnahagsleg áhrif strandsins eru gríðarleg enda fara um tólf prósent af vöruflutningum heimsins um Súes-skurðinn.
Ekki nóg með að töf hafi orðið á sendingum heldur beinlínis skemmdist vara sem sat föst í gámum í skipum beggja vegna skurðsins og dýr á leið til slátrunar þurftu að húka við slæman kost í skipum sem biðu eftir því að komast leiðar sinnar.
Ef horft er á jákvæðu hliðarnar þá sakaði engan í strandinu sem er ekki sjálfgefið þegar um skipsstrand er að ræða. Kjarninn tók saman fimm eftirminnileg skipsströnd í kjölfar strands Ever Given. Mannfall varð í sumum þeirra og í öðrum voru áhrifin á lífríkið á strandstað gríðarleg vegna olíuleka.
1. Exxon Valdez
Þann 24. mars árið 1989 sigldi olíuskipið Exxon Valdez í strand í Prince William sundi í Alaska. Strandið er ef til vill jafn þekkt og raun ber vitni vegna þess hve mikil olía lak úr skipinu með tilheyrandi áhrifum á lífríkið í grenndinni. Talið er að um 250 þúsund sjófuglar hafi drepist vegna olíulekans, tæplega þrjú þúsund otrar, um 300 selir, 250 skallaernir, 22 háhyrningar og milljarðar laxahrogna. Þúsundir tóku þátt í hreinsunarstarfi á strandstað.
Þrátt fyrir að strand Exxon Valdez sé mörgum minnisstætt og það alræmt vegna allrar olíunnar sem lak úr skipinu, þá hafa umfangsmeiri olíulekar orðið á síðustu áratugum. Mestu olíulekarnir eiga það þó sameiginlegt að hafa orðið vegna árekstra skipa en ekki vegna strands. Olíulekinn vegna strands Exxon Valdez er sá mesti sem orðið hefur í Bandaríkjunum ef frá er talinn olíulekinn sem varð frá Deepwater Horizon olíuborpallinum í Mexíkóflóa árið 2010.
2. Víkartindur
„Nítján skipbrotsmenn af þýska flutningaskipinu víkartindi björguðust giftusamlega um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, eftir að skipið strandaði skammt frá Þjórsárósi um klukkan 20:30 í gærkvöldi.“ Á þessum orðum hófst forsíðufrétt Morgunblaðsins fimmtudaginn 6. mars 1997, morguninn eftir strand Víkartinds en Eimskip hafði skipið þá á leigu.
Eftir að vél skipsins hafði bilað, daginn sem skipið strandaði, tók það að reka að landi. Varðskipið Ægir mætti á vettvang en skipstjóri Víkartinds hafnaði hins vegar aðstoð Landhelgissgæslunnar. Að lokum gaf skipstjórinn eftir og Ægir hóf tilraunir við að koma taug í skipið. Aðstæður voru vægast sagt ekki góðar og í seinni tilraun Ægis til að koma taug í Víkartind fékk varðskipið á sig brotsjó með þeim afleiðingum að einn bátsmanna Ægis hafnaði í sjónum og lést.
Líkt og áður segir tókst að bjarga öllum úr áhöfn Víkartinds með hjálp þyrlu Landhelgisgæslunnar. „Það er hæpið að björgunarsveitir í landi hefðu komið mönnunum í land án þyrlunnar, fyrr en skipið rak að landi. Þyrlan sannaði sig með glæsibrag,“ sagði Jón Hermannsson, svæðisstjóri björgunaraðgerða, í áðurnefndri frétt Morgunblaðsins. Aðstæður voru enda mjög slæmar og björgunarmenn í landi sáu ekki skipið þegar skipverjar voru hífðir um borð í þyrluna þrátt fyrir að skipið væri aðeins um 100 til 150 metrum frá landi.
Samkvæmt rannsóknarskýrslu um strandið var „miklu mengunarslysi“ forðað með vel heppnaðri dælingu á olíu úr skipinu en talið er að um 95 prósent af olíu skipsins hafi verið dælt úr því. Þannig tókst að afstýra bráðamengunarslysi eins og það er orðað í skýrslunni en mikil vinna fór auk þess í að tína rusl úr fjörunni í nágrenni skipsins, svo sem timbur, pappír og annað slíkt sem hafði rekið á land.
Árið 2018 sagði Fréttablaðið frá því að það sem eftir væri af Víkartindi hefði komið upp úr sandinum, 21 ári eftir strand.
3. Wilson Muuga
Aðfararnótt 19. desember 2006 strandaði flutningaskipið Wilson Muuga við Hvalsnes á Suðurnesjum. Skipið var þá á leið frá Grundartanga til Rússlands. Samkvæmt umfjöllun um strandið í bókinni Ísland í aldanna rás, 2001-2010 þá bilaði svonefndur gýrókompás með þeim afleiðingum að skipið beygði sjálfkrafa og án viðvörunar í átt að landi þegar það var statt skammt sunnan við Sandgerði.
Danska varðskipið Triton sigldi í átt að strandstað en skipið var þá næst strandinu og óskað var eftir því að það færi á staðinn til að kanna aðstæður. Skipherra varðskipsins ákvað að setja út björgunarbát og hefja flutning á áhöfn Wilson Muuga frá borði. Aðstæður til björgunarstarfa voru erfiðar, vindur var hvass og ölduhæð eftir því. Björgunarbáturinn varð vélarvana og honum hvolfdi með þeim afleiðingum að allir um borð fóru í sjóinn, alls átta skipverjar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá þegar á leið á strandstað og hóf áhöfn hennar leit að skipverjunum átta. Sjö þeirra fundust en einn bátsmaður af varðskipinu hafði látist eftir að flotgalli hans rifnaði og fylltist af sjó. Félagar hans höfðu haldið honum á floti um tíma en örmögnuðust og misstu hann frá sér. Eftir að skipverjum varðskipsins hafði verið bjargað hófust flutningar á áhöfn Wilson Muuga í land með þyrlunni og varð henni allri bjargað.
Skipið mátti dúsa á strandstað í um fjóra mánuði uns það var loks dregið í burtu. Olíu hafði þá verið dælt úr því en í tönkum skipsins voru um 120 tonn af svartolíu og 25 tonn dísilolíu.
4. Costa Concordia
Örfáum klukkustundum eftir að Costa Concordia lagði úr höfn í vikulanga siglingu um Miðjarðarhafið kom babb í bátinn. Skipstjórinn hafði ákveðið að sigla nær eyjunni Giglio undan ströndum Toskana héraðs til þess að gleðja farþega sína, enda eyjan falleg. Skipstjórinn sigldi of nærri eyjunni og stærðarinnar gat kom á skrokk skipsins eftir að það sigldi utan í grjót á grynningum undan ströndum eyjarinnar.
Vatn tók að flæða inn í skipið og vélarrúm þess fór á kaf. Við það sló einnig rafmagni út um borð. Vegna vinda tók stjórnlaust skipið að reka aftur í átt til eyjarinnar Giglio. Skipið tók svo niður skammt frá landi og lagðist á hliðina. Flestir farþegana komust í björgunarbáta en rýming skipsins var erfið sökum þess hve mikið skipið hallaði í sjónum. Í slysinu fórust alls 32. Alls voru 3.206 farþegar um borð þegar það strandaði en 1.023 í áhöfn.
Skipinu var komið á flot og það dregið til Genóa þar sem það var rifið í brotajárn.
Francesco Schettino, skipstjóri Costa Concordia, var að lokum dæmdur til 16 ára fangelsisvistar vegna slyssins. Skipstjórinn var harðlega gagnrýndur fyrir það að hafa komið sér frá borði áður en búið var að koma öllum farþegum og öðrum í áhöfn í björgunarbáta. Á meðan réttarhöld yfir skipstjóranum stóðu yfir á hann að hafa haldið því fram að hann hafi beinlínis fallið útbyrðis þegar skipið var að leggjast á hliðina, beint ofan í björgunarbát sem síðan hafi siglt með hann til lands, þvert á óskir hans sjálfs.
Skipinu, eða flaki þess, var komið á flot rúmum tveimur árum eftir að það strandaði. Það var dregið til hafnar í Genóa sem liggur norðarlega á Ítalíu, við Lígúríuhafið. Þar var skipið rifið í brotajárn.
5. MV Wakashio
Það eru ekki nema rúmir átta mánuðir síðan síðastt varð alvarlegur olílueki vegna skipsstrands. Í júlí í fyrra strandaði skipið MV Wakashio skammt undan ströndum Máritíus. Um 4.000 tonn af olíu voru í tönkum skipsins og um 1.000 tonn hið minnsta eru talin hafa farið í sjóinn í kringum strandstað.
Í umfjöllun BBC er olíulekinn ekki sagður mikill í samanburði við aðra olíuleka sem orðið hafa á undanförnum áratugum en að áhrifin verði engu að síður mikil og langvinn. Allt í kringum strandstaðin eru mikil kóralrif sem eru mikilvæg fyrir lífríki hafsins. Þá hafa sérfræðingar áhyggjur af því að olían í hafinu muni hraða kóralbleikingu.
Skipið klofnaði í ágúst í fyrra og var fremri hluta þess sökkt. Nú stendur yfir niðurrif á þeim hlluta skipsins sem ekki var sökkt en til stendur að endurvinna það sem hægt er að endurvinna af skipinu.