Öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins gerði Fishrot-málið svokallaða, sem varðar meintar mútugreiðslur íslenska sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja til namibískra áhrifamanna, að umtalsefni á opnum fundi utanríkismálanefndar þingsins síðastliðinn fimmtudag.
Þar sátu nokkur sendiherraefni, sem tilnefnd hafa verið í embætti af Joe Biden Bandaríkjaforseta, fyrir svörum nefndarmanna. Eins og Kjarninn sagði frá í gær var Carrin F. Patman, sem tilnefnd hefur verið í embætti hér á Íslandi þar á meðal. En einnig diplómatinn Randy Berry, sem hefur verið sendiherra Bandaríkjanna í Nepal undanfarin ár. Nú stendur til að hann færist til Namibíu.
Þingmaðurinn Dan Cardin vildi ræða um spillingu í Namibíu við Berry. Cardin byrjaði á að halda því til haga að Namibía er nokkuð ofarlega á spillingarmælikvarða Transparency International, eða 58. sæti af um 180 ríkjum og í 6. sæti af ríkjum Afríku, en minntist svo á að nýlega hefðu namibísk stjórnvöld tekist á við stóran spillingarskandal, kallaðan Fishrot, sem tengdist úthlutun kvóta.
Cardin vildi vita hvernig Berry myndi beita slagkrafti sendiráðs Bandaríkjanna í Namibíu gegn spillingu í Namibíu, ef hann yrði skipaður sendiherra, eins og allt útlit er fyrir.
Berry svaraði því til að hann teldi engan vafa á að spilling, sér í lagi þegar kjörnir fulltrúar og embættismenn stæðu ekki undir trausti fólksins, væru ein helsta ógnin við lýðræðið.
„…og ég held að Fishrot-skandallinn hafi opinberað nokkra af þeim veikleikum sem ungt lýðræði Namibíu glímir við á þessu sviði,“ sagði Berry, en bætti svo við að hann vildi benda á nokkra uppörvandi punkta sem hægt væri að sjá varðandi málið.
Í fyrsta lagi hefði málið komist upp vegna umfjallana frjálsra og óháðra fjölmiðla. Í öðru lagi hefðu namibísk stjórnvöld vikið þeim stjórnmála- og áhrifamönnum sem voru sakaðir um spillingu í málinu og hefðu komið þeim fyrir dóm.
Berry sagði í svari sínu, og raunar í skriflegum vitnisburði sínum líka, að hann myndi leggja áherslu á spillingarvarnir í störfum sínum, ef hann yrði skipaður sendiherra og að bandarísk stjórnvöld myndu eiga í samstarfi við namibísk stjórnvöld til þess að lágmarka tækifærin til spillingar í landinu.
Bandaríkin beittu ráðherrana tvo refsiaðgerðum
Á meðal sakborninga í Fishrot-málinu í Namibíu eru tveir fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn landsins, þeir Bernhard Esau og Sacky Shanghala. Þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan í árslok 2019. Síðasta sumar greindu bandarísk stjórnvöld frá því að þeir hefðu verið beittir refsiaðgerðum, sem felast í því að þeim hefur verið meinað að ferðast til Bandaríkjanna.
Í tilkynningu á vef bandaríska utanríkisráðuneytisins um miðjan júní í fyrra sagði að þeir Esau og Shanghala hefðu grafið undan trú namibísku þjóðarinnar á lýðræðislegum stofnunum með því að hafa notað pólitísk áhrif sín og opinberar valdastöður til að hagnast persónulega með þátttöku í markverðri spillingu.