„Það er fagnaðarefni að þessar lykilstofnanir skuli vera í samstarfi um eftirlitið. Þar er sérfræðiþekkinguna að finna og gögnin sem safnast munu geta skorið úr um það hvort að framkvæmd hvalveiða sé lögum samkvæmt,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sem sett hefur reglugerð um eftirlit við hvalveiðar. Í henni er Matvælastofnun falið að hafa reglubundið eftirlit með veiðunum til að farið sé að lögum um velferð dýra og Fiskistofa mun sjá um framkvæmd eftirlitsins samkvæmt fyrirliggjandi samstarfssamningi milli stofnananna tveggja.
Í tilkynningu um málið frá matvælaráðuneytinu segir að Fiskistofa muni m.a. sjá um eftirlitsferðir við veiðar, myndbandsupptökur veiðiaðferða og skráningu þeirra. Veiðieftirlitsmenn munu verða um borð í veiðiferðum og verður öllum gögnum komið til eftirlitsdýralæknis í lok hverrar athugunar.
Fiskistofa hefur einnig eftirlit með því að þau skilyrði sem fram koma í veiðileyfi varðandi veiðibúnað og veiðar séu uppfyllt.
Reglugerðin tekur þegar gildi og mun eftirlitið hefjast samstundis.
Á yfirstandandi hvalveiðivertíð hefur það margsinnis komið fyrir að sprengiskutlar sem Hvalur hf. notar við veiðarnar hafi geigað og ekki sprungið. Því hafi þurft að skjóta dýrin aftur sem tekur tíma og getur lengt dauðastríð þeirra. Dæmi er um, líkt og Kjarninn hefur fjallað um að fjögur skot hafi þurft til að aflífa eitt dýr. Eitt dýrið var skotið í bægsli og þurfti því að skjóta það aftur. Það var langreyðarkýr sem reyndist kelfd og var fóstrið skorið úr henni á vinnsluplaninu við Hvalstöðina.
Sjávarverndarsamtökin Hard to Port hafa fylgst náið með og myndað löndum og verkun hvalanna í hvalstöðinni í Hvalfirði í sumar. Fulltrúar þeirra telja ljóst að aflífunaraðferðirnar brjóti gegn lögum um dýravelferð.
Kjarninn leitaði viðbragða Svandísar vegna þessara mála fyrr í sumar og benti hún á að hvorki ráðuneyti hennar né undirstofnarnir þess hefðu upplýsingar um hvort verklagsreglum um hvalveiðar væri fylgt. „Það er alveg skýrt í mínum huga að ef atvinnugreinar sem byggja á dýrahaldi eða veiðum geta ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra eiga þær sér enga framtíð í nútímasamfélagi, sagði Svandís við Kjarnann.