Styrkur upp á 100 milljónir króna, sem meirihluti fjárlaganefndar ætlaði að úthluta „vegna reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð“ mun ekki verða ráðstafað með þeim hætti sem nefndarmeirihlutinn ætlaði. Styrknum var bætt á fjárlög eftir að beiðni þar um kom frá Maríu Björk Ingvadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlafyrirtækisins N4 á Akureyri. Í beiðninni bað hún um að 100 milljónir króna myndu verða látnir renna úr ríkissjóði til miðilsins. Fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni samþykktu fjárheimildina. Þeirra á meðal var Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann er mágur framkvæmdastjórans.
Í nefndaráliti sem meirihlutinn birti í kvöld segir að við aðra umræðu um fjárlagafrumvarpið hafi verið samþykkt tillaga um tímabundið framlag til reksturs fjölmiðla á landsbyggðinni sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. „Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beinir meiri hlutinn því til ráðherra að endurskoða þær reglur sem gilda um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þannig að aukið tillit verði tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp.“
Samkvæmt heimildum Kjarnans mun fjárframlagið renna inn í styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla og hækka þá upphæð sem þar verður til úthlutunar úr 377 milljónum króna á næsta ári, í 477 milljónir króna. Það mun koma í hlut Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, að útfæra hvernig hið aukna tillit til þeirra landsbyggðarmiðla sem framleiða sjónvarp verður tekið við úthlutun á næsta ári.
Vakti hörð viðbrögð
Kjarninn greindi frá beiðninni frá N4 í morgun. Fréttin vakti mikla athygli og málið var til umfjöllunar á flestum helstu fréttamiðlum landsins í dag. Heimildir Kjarnans herma að ráðherrar í ríkisstjórn hafi látið sig málið varða, enda þótti afar slæmur bragur á því þegar stjórnarþingmenn af landsbyggðinni ákveðna án rökstuðnings að láta almannafé renna til fyrirtækis í sínu kjördæmi, eða sem er stýrt af einstaklingum í þeirra fjölskyldu.
N4 hefur framleitt kostað efni fyrir ýmsa aðila, meðal annars Samherja, og í fyrra var helsti dagskrárgerðarmaður N4, Karl Eskill Pálsson, ráðinn í starf upplýsingafulltrúa Samherja. Í viðtali við Stundina í fyrra, áður en hann réð sig til Samherja, tók Karl Eskill það sérstaklega fram að N4 væri ekki fréttastöð.
Fyrir þingkosningarnar í fyrrahaust var svo greint frá því að N4 hafi ætlað að rukka framboð fyrir að fá að vera með í kosningaumfjöllun sem stöðin ætlaði að vera með. Eftir að málið varð opinbert var hætt við umfjöllunina.
Í samtali við mbl.is í dag kom fram að enginn starfsmaður N4 er titlaður sem ritstjóri og enginn er titlaður fréttamaður. Aðspurður hvort N4 liti á sig sem fréttamiðil sagði Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður N4, að það væri „svolítið erfitt að svara fyrir það nema þú skilgreinir fyrir mig hvað er frétt.“
Rökstuðningur byggður á röngum upplýsingum
Í beiðni Maríu, framkvæmdastjóra N4, um 100 milljón króna styrk fyrir N4 var settur fram fjórþættur rökstuðningur fyrir því að N4 ætti að fá sérstakan rekstrarstyrk úr ríkissjóði. Í fyrsta lagi að skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði á undanförnum árum hafi verið að N4 framleiddi eða sýndi 365 þætti á ári, eða að meðaltali einn nýjan þátt á dag. Þetta er ekki rétt. Í lögum um fjölmiðla segir að skilyrði fyrir styrk séu að prentmiðlar komi út að lágmarki 20 sinnum á ári og að netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skuli miðla nýju efni á virkum dögum í 20 vikur á ári.
Í öðru lagi tiltók María að mörg sveitarfélög hafi verið tilbúin að styrkja þáttagerð af sínum svæðum, ýmist með beinum styrkjum til þáttagerðar eða kaupum á þjónustu. „Nú bregður svo við að aðalbaklandið, Norðurland allt, hvarf frá þessu 2022 en hélt okkur volgum fram eftir ári. Það komu að lokum rúmar 4 milljónir samtals í þjónustukaup frá 12 sveitarfélögum á Norðurlandi eystra nú í lok árs. ( ca 26.000.- að meðaltali á mánuði frá hverju þeirra ). Þetta hefur sett rekstur stöðvarinnar í algjört uppnám.“
Þá sagði hún auglýsingatekjur hefðu stórminnkað á þessu ári. Þar komi tvennt til, annars vegar stóraukið hlutfall auglýsinga sem fari til erlendra samfélagsmiðla, sem María segir í beiðninni að taki til sín 55 prósent auglýsingafjár. Hið rétta er að 43,2 prósent, eða 9,5 af 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa í fyrra, fór til erlendra aðila. Hitt sé að stærstur hluti þess sem eftir verði í landinu fari til RÚV „ þar sem meðallaun sölumanna eru 1,2 milljónir á mánuði“. Auglýsingatekjur RÚV í fyrra voru rúmlega tveir milljarðar króna, sem er undir 20 prósent þeirra auglýsingatekna sem fóru til innlendra aðila í fyrra. Þess utan jukust auglýsingatekjur innlendra fjölmiðla á síðasta ári og flestir miðlar gera ráð fyrir því að kakan hafi stækkað aftur í ár.
Fjórða og síðasta atriðið sem María nefndi til stuðnings þess að N4 eigi að fá sérstakan rekstrarstuðning er að fyrirtæki séu ekki lengur jafn áfjáð í að kosta þætti eftir að kórónuveirufaraldrinum lauk og þau voru áður. Það’ hafi orsakað mikinn tekjusamdrátt.
Bannað að nýta opinbera stöðu til persónulegs ávinnings
Á grundvelli þessa rökstuðnings ákvað meirihluti fjárlaganefndar að veita N4 100 milljónum króna úr ríkissjóði. Meirihlutann skipa Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, Haraldur Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir og Vilhjálmur Árnason úr Sjálfstæðisflokki og Þórarinn Ingi Pétursson og áðurnefndur Stefán Vagn.
Allir þessir þingmenn utan Bryndísar, sem kemur úr Suðvesturkjördæmi, eru þingmenn landsbyggðarkjördæma. Þeir Stefán Vagn og Haraldur eru úr Norðvesturkjördæmi, en framkvæmdastjóri N4 og mágkona Stefáns Vagns er búsett á Sauðárkróki sem er í því kjördæmi. Þau Bjarkey og Þórarinn Ingi eru úr Norðausturkjördæmi, þar sem höfuðstöðvar N4 eru.
Í siðareglum fyrir alþingismenn segir í 5. grein að þingmenn skuli „ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra“. Í 11. grein segir svo að þingmenn skuli við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. „Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“