Í skýrslu Ríkisendurskoðunar á sölu íslenska ríkisins á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum kemur fram að stjórnsýsluúttektin sem stofnunin framkvæmdi sé ekki tæmandi rannsókn á sölunni á Íslandsbanka. Þar er til að mynda ekki tekin afstaða til þess hvort réttmætt hafi verið að selja hlut ríkisins í bankanum á þeim tíma sem það var gert eða til þeirra 207 aðila sem fengu að kaupa. Það heyrir einfaldlega ekki undir Ríkisendurskoðun að rannsaka slíkt.
Þá er ekki tekin afstaða til þess hvort beita hafi átt annarri söluaðferð né lagt mat á hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa og söluaðila, hafi verið í samræmi við lög og gildandi reglur. Þar með talið er hvort sölunni hafi verið beint að öðrum en hæfum fjárfestum, en fyrir liggur að alls 59 aðilar fengu að kaupa fyrir minna 30 milljónir króna í útboðinu. „Það síðastnefnda sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands,“ segir í skýrslunni en það hefur verið með ákveðna anga sölunnar til rannsóknar. Þar er meðal annars verið að skoða hlutabréfaviðskipti í aðdraganda útboðsins á tíma þar sem fjárfestar áttu ekki að vita að sala á hlut í Íslandsbanka væri yfirvofandi. Hægt er að lesa um þann anga hér.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem birt verður síðar í dag en Kjarninn hefur undir höndum, er söluferlið á Íslandsbanka gagnrýnt harkalega. Stofnunin segir fjölþætta annmarka hafa verið á sölunni. Í niðurstöðu hennar segir að standa hefði átt betur að sölunni og hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn í bankanum. Ákveðið var að selja á undirverði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Huglægt mat réð því hvernig fjárfestar voru flokkaðir og orðsporsáhætta af söluferlinu var vanmetin.
Þingflokksformenn sögðust styðja rannsóknarnefnd
Fjölmargir stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu eftir því að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir söluferlið, en slík nefnd hefur víðtækari heimildir en Ríkisendurskoðun. Því var hafnað af stjórnarflokkunum, meðal annars með þeim rökum að vinna þyrfti verkið hratt og því væri Ríkisendurskoðun betur til þess fallin að sinna því en rannsóknarnefnd. Skýrsla Ríkisendurskoðunar mun birtast sjö mánuðum og sjö dögum eftir að beðið var um hana, en upphaflega átti skýrslan að koma fyrir augu almennings fyrir lok júní. Síðasta rannsóknarnefnd Alþingis sem sett var saman, til að rannsaka aðkomu þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8 prósent eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands, lauk störfum sínum á innan við tíu mánuðum. Niðurstaða hennar varpaði algjörlega nýju ljósi á atburðarás sölunnar og opinberaði að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut í Búnaðarbankanum hafi verið blekking.
Þegar sá farvegur að láta Ríkisendurskoðun gera úttekt á sölunni í stað þess að skipa rannsóknarnefnd var til umræðu á þingi skömmu fyrir síðastliðna páska komu nokkrir stjórnarþingmenn í pontu og sögðu að þeir myndu styðja skipun rannsóknarnefndar ef spurningum væri ósvarað eftir að Ríkisendurskoðun lyki sinni vinnu. Þeirra á meðal voru Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, og Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokks.
Landsmenn vildu rannsóknarnefnd
Orðrétt sagði Óli Björn í pontu á þingi þann 7. apríl síðastliðinn: „Ég hef sagt og ætla að endurtaka það hér að ef það verður niðurstaða þingsins að úttekt ríkisendurskoðanda, sem ætti ekki að taka langan tíma, dugi ekki til þá mun ég styðja það að komið verði á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd.“
Orri Páll tók í svipaðan streng og sagði að ef hugmynd Bjarna um skoðun Ríkisendurskoðunar á málinu væri ekki nóg „þá tek ég heils hugar undir með þeirri hugmynd að setja á fót sérstaka rannsókn í málinu, bara heils hugar. Það er allra hagur að þetta mál sé upplýst ef einhver vafi er um ferlið þannig ég tek heils hugar undir það, svo það komi skýrt fram.“
Ingibjörg sagði sama dag að gefi niðurstaða Ríkisendurskoðunar „eitthvert tilefni til þess að skoða þetta enn frekar mun ekki standa á þingflokki Framsóknar að stofna rannsóknarnefnd til þess að skoða þetta.“
Í könnun sem Gallup birti í apríl síðastliðnum var meðan annars spurt að því hvort rannsóknarnefnd Alþingis ætti að gera úttekt á sölunni, líkt og þorri stjórnarandstöðunnar hefði lagt til. Niðurstaðan þar var sú að 73,6 prósent landsmanna töldu að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent töldu nægjanlegt að Ríkisendurskoðun geri úttekt á sölunni, líkt og fjármála- og efnahagsráðherra hafði þegar falið henni að gera.