Í júlí greindust 1.311 einstaklingar með kórónuveiruna innanlands. Sundurliðun á því hvort smitaðir eru bólusettir hófst 9. júlí. Frá þeim degi og til loka júlí hafa rúmlega 70 prósent smitaðra verið fullbólusettir. Alls greindust 326 óbólusettir einstaklingar með COVID-19 á þessu sama tímabili eða fjórðungur allra sem greindust. 41 smit var hjá fólki sem hafði fengið annan skammt bóluefnis. Nær alla daga júlímánaðar hefur meirihluti smitaðra verið utan sóttkvíar við greiningu. Þannig var það líka í í gær, 1. ágúst þegar að minnsta kosti 67 smit voru greind innanlands og um rúmlega helmingur utan sóttkvíar.
Á COVID.is, þar sem tölfræði faraldursins er birt daglega, kemur fram að 1.244 séu í einangrun vegna sjúkdómsins. Fimmtán liggja á Landspítalanum, þar af tveir á gjörgæslu og er annar þeirra í öndunarvél.
Fimm voru lagðir inn á sjúkrahúsið gær vegna COVID og tvær útskriftir voru síðastliðinn sólarhring. Af þeim 1.232 sem eru í eftirliti á COVID-göngudeild, eru tveir á „rauðu“, þ.e. alvarlega veikir og gætu þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda, 28 einstaklingar flokkast „gulir“ og munu einhverjir þeirra koma til skoðunar og frekara mats í dag, segir í tilkynningu frá farsóttarnefnd.
COVID-19 leggst verst á þá sem eldri eru og aðra viðkvæma hópa, s.s. fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Nú eru 265 sextíu ára eða eldri með sjúkdóminn. Rúm 95 prósent fólks á þeim aldri sem hér búa er fullbólusett. Um þúsund manns yfir sextugu eru það hins vegar ekki.
Þá fjölgar smitum áfram hjá börnum en 187 börn eru í einangrun með COVID-19, þar af ellefu yngri en eins árs og áttatíu á aldrinum 6-12 ára. Skólasetningar nálgast óðfluga en flestir grunnskólar landsins hefja starfið á síðustu dögum ágústmánaðar. Kennarar og aðrir starfsmenn skóla sem fengu Jenssen-bóluefnið hafa verið boðaðir í endurbólusetningu nú í vikunni. Örvunarskammturinn sem þeir fá verður annað hvort bóluefni Pfizer eða Moderna.