Samkvæmt tölfræðivef yfirvalda um kórónuveirufaraldurinn er 14 daga nýgengi smita á landamærum lægra en nýgengi smita innanlands þessa dagana. Í dag er staðan þannig að 14 daga nýgengi innanlandssmita stendur í 21,5 og nýgengi landamærasmita í 5,7 á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi.
Raunveruleg tíðni smita í þeim litla hópi fólks sem kemur til Íslands þessa dagana er þó miklu mun hærri en innanlands, en sú niðurstaða kemur skýrt fram ef þeim smitum sem greinast í landamæraskimunum er miðuð við hverja 100 þúsund farþega sem til landsins koma, en ekki hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi.
Ef stuðst er við þá nálgun var 14 daga nýgengi smita á landamærum Íslands yfir 1.000 á hverja 100 þúsund farþega í upphafi þessa mánaðar. Nýgengið er á niðurleið, eftir að hafa farið yfir 1.500 á hverja 100 þúsund komufarþega seinni partinn í mars og farið yfir 3.000 á hverja 100 þúsund farþega er það var hæst í október í fyrra.
Már Örlygsson forritari hefur undanfarna mánuði tekið tölfræði um landamærasmitin saman með þessum hætti og birt opinberlega – en hann færir rök fyrir því að þegar talað er um nýgengi landamærasmita eigi að miða fjölda smita sem greinast niður á þann breytilega fjölda farþega sem koma til landsins – en ekki íbúa á Íslandi, til að fá einhverja gagnlega niðurstöðu.
„Fólk hefur almennt ekkert rosalega djúpan skilning á því hvernig þetta er reiknað út. Það er alveg eðlilegt að venjulegt fólk ruglist bara á þessu, því þetta er pínu ruglandi,“ segir Már í samtali við Kjarnann, en honum finnst vert að yfirvöld endurskoði upplýsingagjöf sína um nýgengi smita á landamærunum til þess að umræðan ruglist ekki.
Sérfræðingar hjá sóttvarnalækni kanna möguleika á að birta gögn með svipuðum hætti
Kjarninn kannaði hvort yfirvöld væru að skoða að breyta upplýsingagjöf sinni hvað þetta varðar. Sú er raunin.
„Það hefur verið til skoðunar hjá okkur að birta talnaefni tengt landamærunum með svipuðum hætti og þarna er lýst,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í skriflegu svari við fyrirspurn.
„Málið er núna á borði sérfræðinga hjá sóttvarnalækni sem eru að kanna möguleika á að birta tölurnar með þessum hætti,“ segir ennfremur í svari Kjartans Hreins.
Ekki gagnlegt að setja smit á landamærum í samhengi við fjölda íbúa á Íslandi
Sjálfur segist Már hafa séð dæmi þess, í umræðum um sóttvarnaaðgerðir að undanförnu, að fólk horfi á það lága nýgengi smita á landamærum sem birtist á upplýsingavef stjórnvalda og haldi því fram það sé lítil ástæða til þess að vera með stífar sóttvarnir á landamærunum – nýgengi smita þar sé svo lítið.
Á meðan er raunin sú að hlutfallsleg tíðni smita hjá komufarþegum til landsins er langt umfram tíðni greindra veirusmita í samfélaginu almennt.
„Talan á landamærunum er eingöngu tæknilega rétt en á engan hátt gagnleg,“ segir Már og tekur dæmi:
Ef 10 farþegar í 5.000 manna farþegahópi greinast smitaðir í landamæraskimun kemur það verr út fyrir 14 daga nýgengi smita á landamærum eins og stjórnvöld birta upplýsingarnar en ef 9 smit greinast í einni flugvél sem kemur til landsins með 20 farþega.
Af þessu ræður Már að upplýsingarnar um nýgengi smita á landamærunum sem yfirvöld halda að almenningi hafi ekki gert mikið til að upplýsa, heldur þvert á móti. Á þetta hefur hann reynt að benda, en fundist eins og hann tali fyrir daufum eyrum.
Sem áður segir eru sérfræðingar hjá sóttvarnalækni þó nú að skoða möguleikann á að birta tölur með svipuðum hætti og Már hefur gert að undanförnu.