Bretar hyggjast ætla að koma í veg fyrir að ólöglegir innflytjendur komist yfir Ermasund með því að setja upp sérstakt öryggissvæði í frönsku borginni Calais þar sem flutningabílar geta stöðvað án þess að eiga hættu á að fólk fari um borð. Þetta tilkynnti Theresa May, innanríkisráðherra Breta, í breska þinginu í dag.
Flutningabílum frá meginlandi Evrópu á leið til Bretlands er lang flestum ekið um borð í ferju í Calais og þaðan silgt til Dover í Bretlandi. Á meðan bílstjórar flutningabílanna bíða eftir að komast um borð hafa ólöglegir innflytjendur freistað þess að komast í gáma eða í farangursrými flutningabílanna.
Talið er að um 3.000 manns haldi sig í Calais og reyni daglega að komast yfir Ermasund með þessum hætti. Vandinn hefur aukist undanfarnar vikur á meðan verkfall franskra ferjustarfsmanna stendur en það hefur tafið ferðir flutningabílanna enn frekar.
Öryggissvæðið, sem fjármagnað verður af breskum stjórnvöldum en undir eftirliti franskra yfirvalda, mun geta annað 230 flutningabílum eða jafn mörgum og annars myndu skapa fjögurra kílómetra langa röð á þjóðvegunum. Vonast er til þess að svæðið verði opnað fyrir 1. desember.
„Þetta mun auka öryggi flutningabíla og ökumanna þeirra; koma þeim af þjóðvegunum þar sem ólöglegir innflytjendur reyna sífellt að komast um borð,“ sagði May í breska þinginu. Hún sagði einnig að yfirvöld hefðu komið í veg fyrir 8.000 tilraunir innflytjenda til að komast til Bretlands síðustu þrjár vikur.
Straumur ólöglegra innflytjenda hefur 60-faldast á þremur árum
Ungverjar hófu í dag að reisa girðingu á landamærum sínum við Serbíu. Þannig á stöðva straum ólöglegra innflytjenda.
Til að reyna að mæta sama vandamáli og Bretar hafa Ungverjar lokað landamærum sínum að Serbíu til að koma í veg fyrir straum innflytjenda þaðan. Í gær hófust Ungverjar handa við að reisa fjögurra metra háa girðingu á landamærunum til að varna því að innflytjendur komist á milli landanna.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá innanríkis- og varnarmálaráðuneyti Ungverjalands segir að daglega komist að meðaltali þúsund manns ólöglega yfir landamærin. „Ólöglegir innflytjendur eru því orðnir að alvarlegu vandamáli og það er mikilvægt að koma böndum á þetta.“
Fjöldi innflytjenda í Ungverjalandi á síðasta ári var meiri en í nokkru öðru Evrópulandi, fyrir utan Svþjóð, eða 43.000 manns. Árið 2012 var fjöldi innflytjenda aðeins 2.000 manns. 95 prósent þeirra sem komu í fyrra komu yfir landamærin frá Serbíu.
Landamæri Ungverjalands og Serbíu eru um 175 kílómetra löng en girðing verður fyrst reist á þeim stöðum þar sem auðveldast er að komast yfir. Á vef breska dagblaðsins The Guardian er greint frá því að þegar hafi um 80.000 innflytjendur og flóttafólk komist yfir landamærin á þessu ári, um 80 prósent þeirra frá Sýrlandi, Írak og Afganistan.
Ungverjaland er aðili Evrópusambandinu (ESB) og þar af leiðandi hluti af Schengen-sáttmálanum um ytri landamæri Evrópu. Þannig er vegabréfaeftirlit fellt niður á landamærum aðildarríkja að Schengen-svæðinu. Ísland er til dæmis aðili að því.
Landamærin við Serbíu eru dæmi um ytri landamæri Evrópu, þar sem Serbía er hvorki hluti af Evrópusambandinu eða Schengen. Komist fólk yfir landamærin þar getur það ferðast um nær öll ríki Evrópu án þess að framvísa skilríkjum.
Evrópuríki hefja landamæraeftirlit á ný
Kristian Jensen, utanríkisráðherra Danmerkur, hitti Frank-Walter Steinmeier, kollega sinn í Þýskalandi, og kynnti honum áform um aukið landamæraeftirlit. (Mynd: Utanríkisráðuneyti Þýskalands)
Danir hyggjast setja upp einskonar landamæraeftirlit á landamærum sínum við Þýskaland. Kjarninn greindi frá því á dögunum að Kristian Jensen, utanríkisráðherra Danmerkur, hafi kynnt þýskum kollega sínum á fundi þeirra Berlín að landamæraeftirlit verði endurvakið.
Landamæraeftirlitið mun að sögn utanríkisráðuneytis Danmerkur miða að því að hamla för ólöglegra innflytjenda og smyglara. Því verði ekki sett upp landamærahlið heldur sérstakar eftirlitsstöðvar reistar í nágrenni landamæranna.
Danmörk er, rétt eins og Þýskaland, aðili að ESB og þar af leiðandi Schengen-sáttmálanum um ytri landamæri Evrópu. Danir segjast ætla að framkvæma eftirlitið innan þeirra reglna sem sáttmálinn kveður á um.
Bretar og Írar ákváðu að taka ekki þátt í samstarfinu um ytri landamæri Evrópu þegar það var gert að hluta Evrópulöggjafarinnar í Amsterdamsáttmála ESB árið 1999.