Fleiri flóttamenn og innflytjendur komust yfir landamærin til Grikklands í júlí síðastliðnum en allt árið 2014. Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins, hefur kallað þetta „kreppu inn í kreppu“ en nærri 50.000 manns komust til Grikklands í júlí.
Samkvæmt Frontex, landamæraeftirliti Evrópusambandsins (ESB) hafa meira en 130.000 ólöglegir innflytjendur komið til Grikklands, flestir flóttamenn frá Sýrlandi og Afganistan sem leita hælis í löndum ESB. Ferð þeirra hefur jafnvel verið yfir Miðjarðarhafið í yfirfullum bátum.
Austari leiðin yfir Miðjarðarhafið er nú orðin sú fjölfarnasta af öllum leiðum flóttafólks frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Þó efnahagur Grikkja sé í rúst eftir greiðslufall og kreppu undanfarin misseri þá er þar meiri hagsæld en í Afganistan, Sýrlandi og fleiri löndum hvaðan sem fólk flytur.
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst ástandinu í grískum höfnum þar sem flóttafólk hefst við í „algerri upplausn“ vegna skorts á nauðsynjavörum eins og fötum, hreinlæti og húsaskjóli. „Það ríkir alger upplausn á eyjunum. Eftir nokkra daga verður þetta fólk flutt til Aþenu þar sem þeirra bíður ekkert,“ var haft eftir Vincent Cochetel, hjá flóttamananstofnun Sameinuðu þjóðanna. Í flestum tilvikum verða Grikkir að fjalla um mál þess flóttafólks sem nær landi þar en áætlanir um að dreifa innflytjendum á aðildarríki ESB hefur tafist vegna andstöðu sumra ríkja.
Á kortinu hér að neðan má sjá hversu mörgum flóttamönnum sem hafa náð ströndum í Grikklandi og Ítalíu ESB-ríkin hafa veitt hæli. Sem dæmi þá voru stjórnvöld í Austurríki beðin um að taka við 1.048 innflytjendum en þau tóku ekki við neinum. Við hvert land eru merktar tvær tölur; fyrri talan sýnir hversu marga landið tók en sú sem er innan sviga er mismunurinn af þeim fjölda sem þau voru beðin um að taka.
Dreifing hælisleitenda í Ítalíu og Grikklandi um Evrópu
Þeir sem tóku fleiri en ætlast var til eru merkt rauð en hin blá.