Ellefu manns greindust jákvæð fyrir kórónuveirunni innanlands í gær og þar af voru sex manns ekki í sóttkví við greiningu. Flest þeirra sem greindust utan sóttkvíar tengjast einhverjum böndum.
Hjördís Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að smitrakning standi enn yfir. Einhver hópur fólks muni fá símtal um að fara í sóttkví í dag.
Það verði hins vegar sennilega ekki neitt gríðarlega margir, enda miklar takmarkanir í gildi í samfélaginu. Samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is eru nú 127 manns í sóttkví eftir að hafa orðið útsett fyrir smiti innanlands.
„Það er það sem hefur verið að gerast undanfarið, eftir að tíu manna samkomutakmarkanir tóku gildi, að það fara ekki jafn rosalega margir í sóttkví,“ segir Hjördís, en ekki hafa greinst jafn mörg smit utan sóttkvíar síðan 30. mars síðastliðinn, en þá voru tilvikin einnig sex talsins.
Hátt í tvöþúsund sýni voru tekin innanlands í gær og rúmlega 500 á landamærunum. Í landamæraskimunum greindust tvö jákvæð sýni, en niðurstaðna er beðið úr mótefnamælingum í báðum tilfellum til þess að skera úr um hvort um virk smit er að ræða.