Flokkur fólksins auglýsti mest allra flokka á Facebook á þriggja mánaða tímabili, frá miðjum maí og fram í miðjan ágústmánuð. Alls keypti flokkurinn auglýsingar á samfélagsmiðlinum fyrir um 1,1 milljón króna. Samfylkingin var ekki langt undan, en hún keypti auglýsingar fyrir rétt undir einni milljón króna á tímabilinu.
Þetta má sjá í skýrslu auglýsingasafns Facebook. Þar kemur fram að á því 90 daga tímabili sem skýrslan nær til hafi þeir níu flokkar sem mælast með möguleika á því að komast inn á þing eytt um 3,5 milljónum króna í auglýsingar á Facebook. Frá því í ágúst í fyrra hafa flokkarnir níu alls keypt 7.569 auglýsingar fyrir samtals 25,6 milljónir króna.
Flokkur fólksins og Samfylkingin skera sig úr í eyðslu á tímabilinu. Á eftir þeim kemur Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur eytt 577 þúsund krónur og á eftir honum kemur Sósíalistaflokkur Íslands sem hefur eytt 190 þúsund krónum. Þeir þrír flokkar sem hafa eytt mestu á Facebook síðustu þrjá mánuði: Flokkur fólksins, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa samtals eytt 76 prósent af öllu því fé sem íslenskir stjórnmálaflokkar hafa eytt í auglýsingar á samfélagsmiðlinum á tímabilinu. Samanlagt fylgi þessara þriggja flokka, samkvæmt nýbirtri kosningaspá Kjarnans, er 40,3 prósent.
Næstkomandi laugardag verða nákvæmlega fimm vikur í kosningar og í síðustu viku var þing formlega rofið. Því má búast við því að kosningabarátta flokka hefjist af fullri alvöru á allra næstu dögum. Í tölum úr auglýsingasafni Facebook má sjá að síðustu 30 daga hefur Samfylkingin eytt mestu í auglýsingar á samfélagsmiðlinum en þegar horft er til síðustu sjö daga þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn vinninginn.
Flokkarnir skiptu á milli sín 2,8 milljörðum
Á yfirstandandi kjörtímabili ákváðu meirihluti þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi að hækka framlög til stjórnmálaflokka um 127 prósent. Fyrir vikið hafa þeir skipt á milli sín 2,8 milljörðum króna á kjörtímabilinu úr opinberum sjóðum.
Síðustu birtu ársreikningar flokka sem eru aðgengilegir almenningi fyrir komandi kosningar eru vegna ársins 2019. Inn í þá vantar því framlag ársins 2020 og 2021, en samanlagt áttu flokkarnir átta að fá um 1.456 milljónir króna til að skipta á milli sín á þeim tveimur árum.
Sósíalistaflokkur Íslands er eini flokkurinn sem mælist með möguleika á því að ná manni inn á þing sem nýtur ekki þessarar opinberu fyrirgreiðslu, heldur þarf að fjármagna sig með framlögum frá stuðningsfólki flokksins. Fylgi hans mælist 6,1 prósent í nýjustu kosningaspá Kjarnans.
Til samanburðar átti Flokkur fólksins, sá sem auglýsir mest á Facebook, 65,6 milljónir króna í handbæru fé í lok árs 2019. Flokkurinn fékk um 62 milljónir króna í framlag úr ríkissjóði á árinu 2019 en þá kostaði um 22 milljónir króna að reka flokkinn. Ef reiknað er með að rekstur hans hafi verið svipaður á árunum 2020 og 2021 má ætlað að Flokkur fólksins, sem mældist með 4,4 prósent fylgi í nýjustu kosningaspánni, hafi úr rúmlega 100 milljónum króna að spila í komandi kosningum.