„Ég var bara í mjög erfiðum aðstæðum – og ég veit ekki einu sinni hvort hægt sé að kalla þetta val. En ég fór þessa leið í staðinn fyrir að svelta.“
Þetta segir kona í samtali við Kjarnann en í ítarlegu viðtali við miðilinn greinir hún frá afleiðingum þess að selja vændi og þeim erfiðu fjárhagslegu aðstæðum sem hún var í þegar hún tók ákvörðunina – ef ákvörðun skyldi kalla. Hún vill ekki láta nafns síns getið.
Heilsuleysi, fátækt og brotin sjálfsmynd spiluðu stóra rullu í því að hún leiddist út í vændi á sínum tíma. Hún segir frá því að hún hafi misst heilsuna í bankahruninu 2008 og í kjölfarið hafi hún farið í endurhæfingu. Biðin á þeim tíma hafi verið 3 til 12 mánuðir en konan bendir á að nú sé biðin enn lengri.
„Á meðan þú ert að bíða eftir endurhæfingarúrræði þá er engin önnur innkoma í boði nema félagsþjónustan ef þú átt ekki maka. Og þar er fjárhagsaðstoðin naumt skorin; þetta er neyðaraðstoð og ekki hugsuð þannig að hún eigi að duga í marga mánuði. Þetta er hugsað sem tímabundið úrræði,“ segir hún og bætir því við að kerfið sé því miður þannig að margir þurfi að reiða sig á þetta neyðarúrræði í hálft ár, ár eða jafnvel lengur.
Konan segir að lítið sé eftir þegar búið er að borga húsaleigu en í hennar tilfelli hafi hún átt meðlag og húsaleigubætur eftir. Meðlagið hafi þó farið í aðra reikninga og hluti af húsaleigubótunum einnig. „Þá átti ég eftir einhverja tíu þúsund kalla til að lifa en þeir gátu verið fljótir að fara því á þessum tíma kostaði tíu þúsund krónur að fylla á ísskápinn.“
Sérstaklega erfitt fyrir fólk með lítið bakland
Konan var með barn á framfæri sínu og bendir hún á að hún hafi þurft að kaupa skólamáltíðir, aðgang að frístund og tómstundum – og fleira fyrir barnið.
„Það er ekkert sjálfsagt að félagsþjónustan aðstoði með það og í mínu tilfelli var það þannig að ég þurfti að lesa mér til um allan minn rétt, um allt sem mér var ekki sagt að fyrra bragði að ég gæti fengið.“
Hún segir að aðstæður sem þessar séu sérstaklega erfiðar fyrir þau sem hafa lítið bakland eða mæta skilningsleysi fjölskyldu sinnar. Hún greinir frá því að hún hafi skammast sín fyrir stöðu sína og að stundum hafi hún þurft að betla frá fjölskyldu sinni 500 krónur í lán ef einhver átti til dæmis afmæli. „Þetta var mjög niðurlægjandi,“ segir hún.
„Ég sá enga aðra leið til að láta þessa hluti ganga upp“
Konan er mjög gagnrýnin á þau úrræði sem standa fátæku fólki til boða. „Kerfið er þannig byggt upp að ef ég vinn mér fyrir einni krónu þá er sú króna dregin af mér. Kerfið leyfir mér ekki að vinna þó ég myndi hafa pínulitla orku til þess. Þannig heldur kerfið manni niðri í sárafátækt og barnanna þá í leiðinni.“
Hún segist enga lausn hafa séð út úr þessum aðstæðum. Hún var ekki að fara á aftur á vinnumarkaðinn í bráð og heilsan var ekki að lagast. Því hafi hún enga aðra leið séð út úr fjárhagsvandræðunum nema að selja vændi. „Ég sá enga aðra leið til að láta þessa hluti ganga upp.“
Þá hafi hún jafnframt haft mikla áfallasögu að baki áður en hún varð óvinnufær. „Ég hafði meðal annars orðið fyrir nauðgun sem unglingur og bjó við heimilisofbeldi bæði sem barn og fullorðin. Þannig var ég mjög brotin, með lága eða enga sjálfsmynd og ekki með getuna til að setja mörk í samskiptum við hitt kynið.“
Gat ekki ímyndað sér afleiðingarnar
Konan segir að hún hefði aftur á móti ekki getað ímyndað sér afleiðingarnar af því að stunda vændi. „Ég gat ekki ímyndað mér að vændi myndi valda mér þeim skaða sem það gerði. Þess vegna ákvað ég frekar að fara í vændi frekar en að selja til dæmis dóp,“ segir hún.
Fólk kann að hafa ákveðnar hugmyndir um „vændiskonuna“ – hvernig henni líður og hvað hún gengur í gegnum. Konan segist vera af þeirri kynslóð sem ólst upp við kvikmyndina Pretty Woman með Juliu Roberts og Richard Gere í aðalhlutverkum. Þar segir frá ríkum viðskiptajöfri sem kaupir vændisþjónustu frá ungri konu og fella þau hugi saman á endanum. Hann verður í raun hvíti prinsinn á hestinum sem bjargar henni úr aðstæðunum.
Þessi heimur er fegraður gríðarlega í kvikmyndinni, að mati konunnar, og þrátt fyrir að hún hafi gert sér grein fyrir því áður en hún fór að stunda vændi þá óraði hana ekki fyrir afleiðingunum á sínum tíma.