Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, segir að Sólveig Anna Jónsdóttir fráfarandi formaður Eflingar hafi „haldið lykilupplýsingum leyndum frá stjórninni til að hylma yfir vanlíðan starfsfólks á skrifstofu Eflingar“ með því að neita að kynna fyrir stjórninni starfslokasamning við fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar í upphafi þessa árs.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Guðmundi, sem send var á fjölmiðla eftir hádegi í dag, en verulegar væringar eru nú innan stéttarfélagsins. Bæði formaðurinn og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson hafa boðað að þau séu á útleið.
Í yfirlýsingu Guðmundar, sem bauð sig fram ásamt Sólveigu Önnu á B-lista til stjórnar Eflingar árið 2018, segir að stjórn Eflingar hafi verið neitað um kynningu á ályktun trúnaðarmanna Eflingar um stjórnunarvanda frá því í júní, en frá hinu sama sagði hann í viðtali við RÚV síðasta föstudag.
„Þegar ég gekk á eftir ályktuninni var mér ekki aðeins ítrekað neitað um hana heldur gerð tilraun til að beita mig persónulegri kúgun á grundvelli þess að formaðurinn hefði aðstoðað mína nánustu,“ segir Guðmundur og bætir við að hann hafi lagt til að utanaðkomandi ráðgjafi yrði fenginn til að fara í gegnum starfsemi félagsins og leita lausna.
Því segir hann að hafi verið alfarið hafnað og að þess í stað hafi verið boðið upp á „hvítþvott mannauðsstjóra“ á stjórnarfundi um miðjan júlí. Guðmundur segir að enginn í stjórninni hafi veitt sér stuðning í málinu, en fram hefur komið í fjölmiðlum í dag að meirihluti stjórnar styðji Sólveigu Önnu.
Guðmundur segir að enga hjálp í málinu hafi heldur verið að fá „hjá SGS og ASÍ þrátt fyrir að fyrir lægi að stjórnin ætti óskoraðan rétt á öllum lykilupplýsingum um starfsemi Eflingar.“
Í yfirlýsingu Guðmundar segir að Sólveig Anna hafi hvorki brugðist við áskorun starfsmanna Eflingar um betrumbætur, né gengist við ábyrgð sinni sem formaður. Þvert á móti hafi hún skellt skuldinni á hann sjálfan og starfsfólk Eflingar.
„Botninum náði hún svo þegar hún krafðist þess að starfsmenn veldu á milli þeirra sjálfra og hennar á starfsmannafundi síðastliðinn föstudagsmorgun. Í kjölfarið sló hún í síðasta sinn á sáttarhönd starfsmannanna,“ segir í yfirlýsingu Guðmundar.
Eins og Kjarninn sagði frá fyrr í dag var samþykkt ályktun á starfsmannafundi Eflingar síðasta föstudag, þar sem því var lýst yfir af hálfu starfsmanna að þeir teldu að ástæða hefði verið fyrir upphaflegri ályktun trúnaðarmanna hjá Eflingu frá því í sumar. Sú ályktun hefur reyndar ekki litið dagsins ljós.