Einar Hermannsson, sem kjörinn var formaður SÁÁ sumarið 2020, hefur sagt af sér embættinu. Ástæðan er sú að hann svaraði fyrir nokkrum árum auglýsingu á netinu „þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem almannatengill hefur sent til fjölmiðla fyrir hönd Einars.
Þar er haft eftir Einari að sú hegðun sem hann hafi sýnt sé „ófyrirgefanleg en ég taldi mér ranglega trú um að þau samskipti væru grafin og gleymd og þau hafa ekki haft áhrif á störf mín fyrir SÁÁ. Ljóst er hins vegar að umræða um þetta mál er einungis til þess fallin að varpa rýrð á SÁÁ ef ég sit þar áfram sem formaður.“
Hann segist iðrast að hafa farið þessa leið og um leið valdið fjölskyldu sinni sársauka með hegðun sinni. „Bið ég alla þá sem málið varðar afsökunar á framferði mínu.“
Einar segist ekki ætla að tjá sig frekar um málið.
Skömmu eftir að yfirlýsing Einars var send birti Stundin umfjöllun um málið þar sem greint var frá því að miðillinn hefði unnið að rannsókn á vændiskaupum Einars á árunum 2016-2018. Sú umfjöllun er studd gögnum sem sýna meðal annars samskipti konu og Einars í skilaboðum á Facebook. Í umfjölluninni segir meðal annars: „Stundin hefur rætt við konuna sem nú er á batavegi eftir langvarandi fíkniefnaneyslu. Hún segist hafa leiðst út í vændi til að fjármagna eiturlyfjaneyslu sína. Á því tímabili hafi Einar keypt af henni kynlífsþjónustu. Eftir að hún náði bata ætlaði hún að leita réttar síns og ræddi við sérfræðinga en þegar á hólminn var komið varð hún hrædd og kærði ekki. Nú er málið fyrnt.“
Í umfjöllun Stundarinnar segir að Embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020 og að minnsta kosti einn stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ hafi sama ár vitað að því að Einar hefði keypt vændi af veikum fíkniefnaneytanda.
Fá 1,2 milljarð króna á fjárlögum
SÁÁ, samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, eru félagasamtök sem sjá þeim sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda, og aðstandendum þeirra, fyrir sjúkrameðferð og endurhæfingu. Auk þess vinna samtökin að forvörnum. Um er að ræða umfangsmesta meðferðarúrræði sem er til staðar vegna áfengis- og vímuefnavanda hérlendis.
Sú stofnun sem greiðir út þær fjárhæðir er Sjúkratryggingar Íslands, á grundvelli þjónustusamninga sem hið opinbera hefur gert við SÁÁ.
Krafa um endurgreiðslu á 174,5 milljónum
Gustað hefur um SÁÁ undanfarið en harðvítugar deilur hafa geisað um hvort félagasamtökunum hafi verið heimilt að fá greiðslur úr ríkissjóði fyrir þjónustu á tímum kórónveirufaraldurs sem var með öðru sniði en áður.
Sjúkratryggingar Íslands telja enga slíka heimild vera í gerðum samningum og hafa krafið samtökin um endurgreiðslu á 174,5 milljónum króna.
Auk þess hefur málið verið sent til héraðssaksóknara vegna grunsemda um lögbrot. SÁÁ hefur hafnað öllum ásökunum og forsvarsmenn samtakanna sagst slegnir yfir stöðunni sem upp er komin. Í yfirlýsingu framkvæmdastjórnar samtakana, sem send var út í síðustu viku, sagði meðal annars: „„Framkvæmdastjórn SÁÁ harmar þann farveg sem málið er komið í. Af hálfu SÁÁ hefur verið reynt að skýra hvernig verklagi var háttað, en í bréfi Ara Matthíassonar, deildarstjóra eftirlitsdeildar SÍ, sem dagsett er 29. desember 2021 og birt er á visir.is, er ekki tekið tillit til þeirra skýringa.“