Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spyr hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að fólk frá ríkjum á borð við Venesúela og Sýrland geti komið til Íslands og fengið vernd í samræmi við ákvæði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna?
Spurningunni beindi hún að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
„Undanfarna viku hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks, með hæstvirtan dómsmálaráðherra í broddi fylkingar, farið mikinn í umræðu um stjórnlaust ástand í málefnum flóttafólks og umsækjenda um vernd hér á landi en fordæmalaus fjöldi fólks er á flótta í heiminum, ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu,“ sagði Helga Vala.
Hún sagði einnig að í umræðunni í vikunni hafi nokkuð frjálslega hafi verið farið með staðreyndir og „alið mjög á ótta um að hér sé jafnvel allt að fyllast af afbrotafólki þegar um er að ræða fólk sem flýr stríðshörmungar“.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi til laga um landamæri. Ráðherra sagði af því tilefni í samtali við Morgunblaðið að borið hafi á því að hælisleitendur hafi komið til Íslands með venesúelsk vegabréf „þrátt fyrir að vera frá öðrum löndum“. Þá sagði hann í samtali við RÚV fyrr í vikunni að ástandið væri stjórnlaust og að bregðast þurfi við auknum fjölda hælisleitenda með hertum reglum.
Dómsmálaráðherra hyggst á leggja fram breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðlega vernd) síðar í þessum mánuði. Í greinargerð frumvarpsins segir að frumvarpinu sé meðal annars ætlað að „samræma löggjöf og framkvæmd þessara mála við umgjörð annarra Evrópuríkja, einkum annarra Norðurlanda.“
Helga Vala spurði forsætisráðherra, sem leiðtoga ríkisstjórnarinnar, hvort hún muni styðja breytingar á lögum um útlendinga „sem fela í sér frekari hindranir fyrir fólk á flótta sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og kærunefnd útlendingamála hafa sagt að þurfi vernd?“
Stöðuna megi rekja til tveggja stjórnvaldsákvarðana
Umsóknir um alþjóðlega vernd hafa aldrei verið fleiri en nú. Í máli forsætisráðherra kom fram að umsóknirnar eru nú yfir þrjú þúsund talsins, alls 3.133. Hátt í 1.900 eru frá Úkraínu og 653 frá Venesúela. Yfir 100 manns frá Venesúela hafa fengið viðbótarvernd frá á Íslandi eftir að kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð í máli einstaklings frá Venesúela þann 18. júlí og felldi með honum úr gildi fyrri ákvörðun Útlendingastofnunar, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Katrín benti á að stöðuna í málefnum útlendinga megi meðal annars rekja til tveggja stjórnvaldsákvarðana sem hafa verið teknar, annars vegar af hálfu stjórnvalda að bjóða öll velkominn frá Úkraínu og hins vegar ákvörðun kærunefndar útlendingamál. „Því get ég ekki tekið undir að hér sé stjórnlaust ástand. Þetta eru ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þegar við lítum á önnur þau sem hingað hafa komið er sá fjöldi í sjálfu sér ekkert umfram það sem ætla mætti að væri eðlilegt,“ sagði forsætisráðherra.
Staðan eins og hún er núna skapi hins vegar álag. „Þetta skapar álag á húsnæðismál hjá sveitarfélögum, þetta skapa álag úti í skólunum,“ sagði Katrín, sem hefur stofnað ráðherranefnd um málefni útlendinga og innflytjenda þar sem ætlunin er að fara heildstætt yfir þessi mál. Í nefndinni sitja, auk forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, háskólaráðherra.
„Af því að auðvitað þurfum við að tryggja það að við getum tekist á við stöðuna með sómasamlegum hætti, staða sem er, eins og ég segi, fyrst og síðast til komin vegna ákvörðunar ríkisstjórnar annars vegar og ákvörðunar kærunefndar útlendingamála hins vegar,“ sagði Katrín.
Kostnaði skellt á sveitarfélögin sem „nú emja hávært“
Helga Vala þakkaði forsætisráðherra fyrir afdráttarlaust svar til stuðnings fólki á flótta frá Venesúela og Úkraínu en spurði svo hvers vegna undirbúningur fyrir fyrirsjáanlegan fjölda flóttafólks frá Úkraínu var ekki betri.
„Hvers vegna hefur ríkinu ekki tekist að gera samninga við fleiri sveitarfélög um móttöku fólks á flótta? Og hvers vegna er ekki tryggt að fjármagn með hverjum og einum sem nýtur þjónustunnar sé tryggt heldur kostnaði skellt á sveitarfélögin sem nú emja hávært, eðlilega?“ spurði Helga Vala.
Fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd var opnuð í skrifstofuhúsnæði í Borgartúni í síðustu viku. Rauði krossinn hefur kallað eftir því að fleiri sveitarfélög verði að koma að verkefninu eigi Rauði krossinn að ná utan um það. Til þessa dags hafa einungis fimm sveitarfélög undirritað samning um þátttöku í samræmdri móttöku flóttafólks, og sumir þeirra eru auk þess útrunnir. Það eru Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær, Reykjanesbær, Árborg og Akureyrarbær.
Katrín sagðist furða sig á þeim málflutningi um að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélög vegna móttöku flóttafólks. Vísaði hún í nefnd sem hefur verið starfandi frá árinu 2017 um samræmda móttöku flóttafólks og hennar hlutverk var að gera tillögur að samræmdu móttökukerfi fyrir flóttafólk óháð því hvernig það kæmi til landsins.
„Ég átta mig ekki alveg á þessari umræðu um að þetta hafi ekki verið undirbúið með nægjanlegum hætti. Ég get eiginlega ekki fallist á það. Ég skil þó alveg að almennt er staða sveitarfélaga þung, þau halda sína fjármálaráðstefnu í dag og auðvitað getum við ekki litið fram hjá því að þessi mikli fjöldi fólks skapar álag, ekki bara á ríkið heldur einnig stofnanir sveitarfélaga,“ sagði forsætisráðherra.