Fréttir af verkföllum, endalausum röðrum og löngum afgreiðslutímum, seinkunum og aflýsingum flugferða, haugum af munaðarlausum farangri og jafnvel lokunum heilu flugvallanna hafa verið tíðar það sem af er sumri. Hluti orsakarinnar eru ferðaþyrstir Evrópubúar, sem geta nú flogið án mikilla takmarkana eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldurs. Forstjóri Ryanair telur þó að þessi mikla ringulreið sem skapast hefur í evrópska flugbransanum sé ekki tímabundin heldur eigi eftir að vara næstu árin.
Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair flugfélagsins, sem er leiðandi meðal lággjaldaflugfélaga, segir í samtali við The Guardian að flugferðir einfaldlega orðnar of ódýrar og það gangi ekki. Hann hugsi til þess í hvert sinn sem hann lendir á Stansted flugvellinum og greiðir meira fyrir lestarmiðann inn í London heldur en flugmiðann hversu fáránlegt það séþ
Vegna þessa boðar hann frekari verðhækkanir á flugi næstu árin, en verð á flugi hefur farið hækkandi undanfarin misseri, bæði í kjölfar heimsfaraldursins og svo enn meira vegna innrásar Rússa í Úkraínu og hækkandi verðs á olíu vegna þess. Meðalverð flugmiða með Ryanair stendur nú í 40 til 50 Evrum og segir O‘Leary að búast megi við því að það hækki í 60 Evrur.
Þó er Ryanair eitt fárra evrópskra flugfélaga sem hefur að mestu sloppið við vandræði vegna manneklu, en hún er einmitt það sem hefur verið að valda hvað mestum vandræðum í flugsamgöngum það sem af er sumri. Íslenskir ferðamenn hafa ekki farið varhuga af ringulreiðinni, en kvörtunum sem Neytendastofu hefur borist vegna seinkana og niðurfellinga á flugferðum hefur stórfjölgað, að því er Vísir fjallaði um á dögunum.