Þetta er skelfilegur gjörningur, sagði Karl Bretaprins um síðustu helgi. Þar var hann að tala um ákvörðun stjórnvalda að flytja fólk sem leitar hælis á Bretlandseyjum til Rúanda. Þar á fólkið að dvelja á meðan hælisumsóknir þess eru afgreiddar. Og ef það fær hæli mun það samt sem áður ekki snúa aftur til Bretlands.
Fyrsta flugvélin með hælisleitendur mun samkvæmt áætlun hefja sig til flugs í kvöld. Reynt hefur verið að fá lögbann á þennan gjörning en von um slíkt virðist nú úti. Forsætisráðherrann Boris Johnson var spurður í gær kvöld að Karl prins hefði á röngu að standa. Svarið: „Það sem ég held að við ættum ekki að gera er að styðja við áframhaldandi starfsemi glæpagengja.“
Þar var hann að vísa til þess sem stjórnvöld hafa sagt helstu ástæðu þess að flytja hælisleitendur úr landi með þessum hætti, að það séu glæpagengi sem hvetja til hættulegra ferðalaga frá Frakklandi til Bretlands, á vafasömum smákænum yfir Ermarsundið.
Um borð í vélinni í kvöld verður m.a. fólk frá Írak og Sýrlandi. Einnig fólk sem flúið hefur Íran. Að auki verða um borð hælisleitendur frá Albaníu og fleiri löndum. Mögulega munu einhverjir draga umsóknir sínar um vernd til baka. Snúa frekar aftur til heimalandsins. Eða freista þess að fá hæli í öðrum Evrópulöndum.
Það er enn mögulegt að vélin fari hvergi. Að fluginu verði að minnsta kosti frestað. Vegna tafa sem orðið hafa í kjölfar þess að margir hælisleitendur reyndu að fá ákvörðun um flutning til Rúanda hnekkt kann að vera að fátt yrði um borð í vélinni ef af ferðinni yrði. Kannski yrðu aðeins um tíu manns fluttir í kvöld, segir heimildarmaður Guardian hjá innanríkisráðuneytinu.
Vísa til laga um nútíma þrælahald
Þótt dómstólar hafi frá því á föstudag vísað hverri áfrýjun niðurstöðu stjórnvalda um brottflutning frá halda málin áfram að streyma inn á þeirra borð. Í dag verða að minnsta kosti þrjár teknar fyrir.
Lögfræðingar sem tekið hafa mál fólks sem vísa á úr landi með þessum hætti að sér bera m.a. fyrir sig lögum um nútíma þrælahald.
Írani sem upplýsti um mannréttindabrot í heimalandi sínu og flúði þaðan átti að vera um borð í vélinni í kvöld. En hann fékk þau tíðindi frá innanríkisráðuneytinu um helgina, að því er segir í Guardian, að flutningi hans til Rúanda hefði verið frestað. „Ég er ennþá mjög áhyggjufullur um framhaldið,“ segir hann.
Fólkið sem leggur í hættuförina á smábátum frá Frakklandi yfir Ermarsund til Bretlands er flest frá Íran, Írak og Sýrlandi. Um 28 þúsund manns komu þessa leið til Bretlands í fyrra. Að minnsta kosti 44 drukknuðu á leiðinni, þar af 27 í einu og sama slysinu. Flestir hælisleitendurnir eru ungir karlmenn á aldrinum 18-39 ára.
„Frá árinu 2015 hefur Bretland boðið yfir 185 þúsund mönnum, konum og börnum, skjól, fleirum en nokkuð annað land í Evrópu,“ sagði Boris Johnson nýverið. Bretland er þó langt í frá eftirsóknarverðasti áfangastaður fólks á flótta í álfunni. Í fyrra sóttu tæplega 130 þúsund manns um hæli í Þýskalandi. Frakkland fylgdi þar á eftir en rétt rúmlega 44 þúsund manns sóttu um hæli í Bretlandi.
Fulltrúar skoska þjóðarflokksins hafa gagnrýnt ákvörðun stjórnar Johnson harðlega. Þau segja aðgerðirnar til þess gerðar að mylja undan sáttmála þjóða um flóttafólk.
Og fleiri hafa tekið í sama streng.
„Fólk sem er að flýja stríð, átök og ofsóknir á skilið samúð. Það á ekki að fara með það eins og vörur, flytja það til útlanda til úrvinnslu.“ Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNCHR, hefur verið mjög harðorð í viðbrögðum sínum við þvi að stjórnvöld í Bretlandi ætli að senda fólk sem leitar þar alþjóðlegrar verndar inn í miðja Afríku. Stofnunin leggst alfarið gegn þeim fyrirætlunum að flytja út – útvista ef svo má segja – skyldum gagnvart hælisleitendum. „Að leita hælis eru mannréttindi.“
Johnson hefur hins vegar sagt að það sé „siðferðislega rétt“ að flytja þær þúsundir hælisleitenda sem koma til Bretlandseyja yfir Ermarsundið, oft á litlum skektum og stefna lífi sínu og sinna með þeim hætti í voða, með flugi til Rúanda – í um 6.500 kílómetra fjarlægð.
„Ég held að við séum komin með framúrskarandi stefnu í því að reyna að stöðva drukknun fólks á hafi úti,“ hefur Johnson m.a. sagt og undrast alla þá gagnrýni sem áætlanirnar hafa fengið. „Ég held að það sé siðferðislega rétt að stoppa glæpagengi í því að misnota fólk og senda það ofan í vota gröf. Ég held að þetta sé skynsamleg, hugrökk og frumleg stefna.“
Að senda fólk sem leitar hælis til annarra landa „til úrvinnslu“ er þó alls ekki frumleg stefna. Hún hefur áður verið reynd og það með slæmum árangri. Frumleikinn er heldur ekki meiri en svo að í fyrra ákváðu dönsk stjórnvöld að fara nákvæmlega sömu leið: Senda hælisleitendur sem þangað leita beinustu leið til Rúanda.
Erkibiskuparnir af Kantaraborg og York eru í hópi þeirra sem fordæmt hafa fyriráætlanirnar og segja það að senda hælisleitendur „aðra leiðina“ í burtu ekki standast kristið siðferði.
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands skrifaði undir viljayfirlýsingu um málið við stjórnvöld í Rúanda í vetur, samkomulag sem sagt er munu kosta 120 milljónir punda, um 20 milljarða íslenskra króna.
Þingmenn Verkamannaflokksins greiddu atkvæði gegn breytingum á lögum sem myndu heimila flutning hælisleitenda til annars lands. Sögðu þeir frumvarpið „ófullnægjandi og illkvittið“.
Mannréttindasamtökin Freedom House sögðu í skýrslu sinni árið 2020 að flóttafólk frá Austur-Kongó og Búrúndí væri útsett fyrir kynferðislegri misnotkun og ofbeldi í Rúanda auk þess sem það hefði verið þvingað til að ganga í vopnaðar sveitir í landinu.