Framsóknarflokkurinn í Mosfellsbæ er í lykilstöðu í meirihlutaviðræðum í bænum eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna féll í sveitarstjórnarkosningunum um helgina.
Framsóknarflokkurinn hefur rætt við alla flokka, óformlega þó. Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ, segir í samtali við RÚV að hún skynji að bæjarbúum hafi fundist vera kominn tími á breytingar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans metur flokkurinn það svo að niðurstöður kosninganna sýni skýrt ákall frá kjósendum að binda enda á stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í bænum og því sé horft til að mynda meirihluta með öðrum en flokknum.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 27,3 prósent atkvæða og fjóra fulltrúa kjörna en tapaði um tólf prósent fylgi frá síðustu kosningum. Samstarfsflokkur þeirra í meirihluta, Vinstri græn, náðu ekki manni inn. Framsókn bætti við sig gríðarlegu fylgi, fékk 32,3 prósent atkvæða og fjóra menn kjörna í bæjarstjórn. Flokkurinn hefur ekki átt mann í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá árinu 2010. Á kjörtímabilinu á undan, árin 2006-2010, hafði hann einn fulltrúa. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn aðeins 2,9 prósent atkvæða.
Vinir Mosfellsbæjar fengu 13 prósent atkvæða og einn mann kjörinn, sem og Samfylking og Viðreisn, sem voru þó með örlítið minna fylgi eða níu prósent og 7,8 prósent.
Samkvæmt heimildum Kjarnans búast margir við tilkynningu frá Framsóknarflokknum í Mosfellsbæ síðar í dag eða á morgun um hvaða flokkar taki þátt í formlegum meirihlutaviðræðum. Líklegast er talið að Framsókn myndi meirihluta með Samfylkingu og Viðreisn en einnig kemur til greina að bjóða Vinum Mosfellsbæjar að taka þátt í meirihlutamyndun.
Halla Karen segir í athugasemd sem send var til Kjarnans síðdegis í dag að Framsókn hafi ekki útilokað neinn flokk varðandi mögulegt meirihlutasamstarf. „Allur orðrómur og fréttaflutningur sem heldur öðru fram er því beinlínis rangur.“
Sterkt stjórnmálafl í áratugi
Sjálfstæðisflokkurinn hefur um langan tíma verið mjög sterkt stjórnmálaafl í Mosfellsbæ, áður í Mosfellssveit. Sem dæmi hlaut hann tæp 64 prósent atkvæða í kosningunum árið 1990. Hann bauð fyrst fram árið 1970. Þá varð Jón M. Guðmundsson, bóndi á Reykjum, oddviti hreppsins líkt og hann hafði verið frá árinu 1962 og átti eftir að vera til ársins 1981. Hann var svo hreppstjóri til 1990. Í þessi 52 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn hlotið flest atkvæði allra framboða í sveitarfélaginu og nokkrum sinnum hreinan meirihluta. Það gerðist t.d. árin 1982, 1986, 1990 og árin 2002. Síðan þá hefur hann reyndar tvisvar sinnum verið mjög nálægt hreinum meirihluta atkvæða, árin 2010 (49,8%) og 2014 (48,7%) en bæði þess ár hlaut hann engu að síður meirihluta bæjarfulltrúa
Í kosningunum árið 2006 myndaði Sjálfstæðisflokkurinn stjórn með Vinstri grænum og hefur það samstarf haldið síðan. Í síðustu kosningum hlutu sjálfstæðismenn 39,2 prósent atkvæða og myndaði meirihluta með Vinstri grænum sem fékk 9,6 prósent fylgi. Haraldur Sverrisson, sem verið hefur bæjarstjóri frá árinu 2007 bauð sig ekki fram í kosningunum nú og því ljóst að nýr bæjarstjóri mun taka við bráðlega við.
Verði Framsókn, Viðreisn og Samfylking í nýjum meirihluta mun hann samanstanda af sex bæjarfulltrúum sem er naumur meirihluti þar sem bæjarfulltrúum var fjölgað úr níu í ellefu fyrir kosningarnar. Verði Vinir Mosfellsbæjar með í meirihluta verður hann skipaður sjö bæjarfulltrúum og Sjálfstæðisflokkurinn verður einn eftir í minnihluta.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir að athugasemd barst frá oddvita Framsóknarflokksins í Mosfellbæ.