Dagsins í dag hefur verið beðið með nokkurri óþreyju á Englandi og hefur vikum saman verið kallaður „frelsisdagurinn“. En aðrir eru ekki eins spenntir. Telja ekki tímabært að fagna frelsinu sem aflétting innanlandsaðgerða í landinu hefur í för með sér. Forsætisráðherrann Boris Johnson, sem er sjálfur í sóttkví í dag eftir að heilbrigðisráðherrann greindist með COVID-19, hvetur fólk til að fara áfram með gát þrátt fyrir að lög og reglur er snúa að hegðun fólks í heimsfaraldrinum séu ekki lengur til staðar.
Engar takmarkanir eru nú á því hversu margir mega koma saman. Næturklúbbar opnuðu á miðnætti og ekki þarf lengur að bíða eftir að fá þjónustu á borðin á veitingastöðum og börum. Grímuskyldan er aflögð þótt áfram sé hvatt til að bera grímur á ákveðnum stöðum.
Um 50 þúsund greinst nú daglega með veiruna í Bretlandi. Vísindamenn telja að daglegur fjöldi smita gæti orðið í kringum 200 þúsund síðar í sumar.
Á sama tíma og „frelsisdagurinn“ er runninn upp á Englandi hafa stjórnvöld í Frakklandi sagt að ekki sé útilokað að aftur verði gripið til aðgerða þar í landi haldi smitum áfram að fjölga líkt og verið hefur undanfarið. Í gær, sunnudag, greindust yfir 12.500 smit í Frakklandi og höfðu þá ný smit verið yfir 10 þúsund þrjá daga í röð. Þar líkt og víðast annars staðar er delta-veiran allsráðandi.
Stjórnvöld í Frakklandi eru ekki sérstaklega lukkuleg með nýjustu ákvarðanir kollega sinna í Bretlandi sem sett hafa á hertari ferðatakmarkanir á ferðamenn frá Frakklandi.
En þar sem yfir 68 prósent fullorðinna íbúa Bretlands eru nú fullbólusett er gert ráð fyrir að sjúkrahúsinnlagnir, alvarleg veikindi og dauðsföll af völdum COVID-19 verði mun færri en í bylgjum faraldursins hingað til.
Boris Johnson sagði í myndbandi sem hann birti á Twitter í gær að hann teldi nú rétta tímapunktinn til að færa sig yfir á lokastig afléttinga á Englandi.
„Ef við gerum það ekki núna þá þurfum við að spyrja okkur, hvenær þá?“ sagði Johnson og að í haust og vetur myndi veiran geta nýtt sér kaldara veður. Það gerði hún vissulega síðasta haust þegar stórar bylgjur faraldursins helltust yfir Evrópu og Bandaríkin. „En við verðum að gera þetta varlega. Við verðum að muna að þessi veira er því miður enn þarna úti. Tilfellum er að fjölga og við sjáum að delta-afbrigðið er gríðarlega smitandi.“
Verkamannaflokkurinn fylgir Johnson ekki að máli í þessum efnum og skuggaráðherra hans í heilbrigðismálum segir „kæruleysi“ að afnema grímuskyldu. Hann varar við „dögum öngþveitis“ framundan í lestarkerfunum þar sem fjöldi fólks myndi nú snúa aftur til vinnu mánuðum eftir að það fór heim að vinna.