Nýráðinn forstjóri og fjármálastjóri SKEL fjárfestingafélags munu fá kauprétti að andvirði 1,6 milljarða króna næstu fimm árin, miðað við uppgefið nýtingarverð sem er 16,4 krónur á hlut. Þeir munu eiga fimm prósent í Skel þegar réttirnir eru fullnýttir.
Arðgreiðslur og aðrar útgreiðslur til hluthafa munu koma til lækkunar á nýtingarverðinu. Sé horft framhjá því nemur kaupréttargengið um 20 krónum á hlut. Miðað við það gengi getur virði samninganna orðið tæplega 1,9 milljarðar króna.
Tillaga um breytingu á starfskjarastefnu Skel þess efnis að tekið yrði upp kaupréttakerfi sem heimilar þetta var lögð fram á aðalfundi Skel í síðasta mánuði. Lífeyrissjóðirnir Frjálsi og Birta, sem eiga samtals um 12 prósenta hlut í félaginu, samþykktu ekki veitingu þessara kauprétta, sem eru á meðal þeirra stærstu sem hafa boðist einstökum starfsmönnum fyrirtækja hérlendis frá síðasta fjármálahruni. Þær mótbárur báru ekki árangur og kerfið var samþykkt á aðalfundi Skel í síðasta mánuði.
Félagið Strengur, sem stýrt er af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Skel, á rúmlega helmingshlut í fjárfestingarfélaginu.
Öll heimildin nýtt á tveimur nýjum starfsmönnum
SKEL tilkynnti í gærmorgun að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka, hefði verið ráðinn forstjóri félagsins og að Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku banka, hefði verið ráðinn fjármálastjóri þess.
Í tilkynningu sem birtist eftir lok markaða í gær greindi SKEL svo frá því að bæði Ásgeir Helgi og Magnús Ingi fengju kauprétti um hluti í félaginu í samræmi við kaupréttaáætlun þess sem samþykkt var á síðasta aðalfundi.
Samkvæmt þeirri áætlun, sem tók gildi þann 10. mars, var SKEL heimilt að úthluta kauprétti til lykilstjórnenda félagsins af 5 prósentum af útgefnu heildarhlutafé þess. Markaðsverð þessara kauprétta er um 1,6 milljarðar króna, ef miðað er við meðalgengi hlutabréfa félagsins síðustu daga.
Þessi kaupréttarheimild, sem gildir til ársins 2027, er fullnýtt í nýjum samningum við Ásgeir Helga og Magnús Inga. Samkvæmt tilkynningu SKEL nemur virði kaupréttar Ásgeirs 1,02 milljörðum króna, á meðan virði kaupréttar Magnúsar Inga nemur 572 milljónum króna.
Stórir samningar
Kaupréttarsamningarnir eru á meðal þeirra umfangsmestu sem hafa verið gerðir til einstakra starfsmanna á íslenskum hlutabréfamarkaði frá síðasta fjármálahruni. Til samanburðar innleiddi Arion banki kaupréttaráætlun til allra 628 fastráðinna starfsmanna bankans, en samkvæmt henni gat hver og einn þeirra keypt fyrir 600 þúsund krónur einu sinni á ári í fimm ár.
Stuttu síðar var hámarkið hækkað upp í 1,5 milljónir króna, og nemur það því 7,5 milljónum króna fyrir fimm ár. Það er um 0,7 prósent af virði kauprétta Ásgeirs Helga í SKEL fyrir næstu fimm árin.
Í febrúar ákvað stjórn Marels, sem er langstærsta félagið í Kauphöllinni, að veita 300 starfsmönnum sínum kauprétti að andvirði 6 milljarða króna fyrir næstu þrjú árin. Þar af var heildarvirði kauprétta fyrir alla framkvæmdastjórn fyrirtækisins 1,3 milljarðar.
Stjórn Haga ákvað í fyrra að veita lykilstarfsmönnum félagsins kauprétti fyrir eitt prósent af hlutafé félagsins fyrir næstu sex árin, en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá nam heildarmarkaðsvirði þess 741 milljón króna. Þar var kaupréttinum dreift jafnt á milli átta lykilstjórnenda félagsins.
Studdu ekki kaupréttina
Arnaldur Loftsson er framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins sem er þriðji stærsti hluthafinn í SKEL með 8,57 prósenta eignarhlut. Í samtali við Kjarnann segir hann Frjálsa ekki vera almennt á móti kaupréttum, en þótti umfang kaupréttaráætlunarinnar sem lögð var fram á síðasta aðalfundi félagsins meira en almennt gerist hér á markaði. Því hafi sjóðurinn ákveðið að styðja ekki tillöguna.
Birta lífeyrissjóður er fimmti stærsti hluthafinn í SKEL með 4,45 prósenta eignarhlut. Í samtali við Kjarnann sagði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, að Birta hefði heldur ekki samþykkt tillöguna um kauprétti sökum þess hversu óljós og opin hún hefði verið.
Líkt og Frjálsi segir Ólafur að Birta hafi enga sterka skoðun á kaupréttum almennt eða árangurstengingu launa þegar áætlanir séu skýrar og hóflegar. Þó sé hann hugsi yfir því að kaupréttarheimildin, sem sé til fimm ára, hafi verið fullnýtt nú þegar í tvo starfsmenn félagsins sem séu nýbyrjaðir.