„Langar að byrja í dag á smá hrósi og þökkum,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, við upphaf upplýsingafundar almannavarna í dag. Hrósið fór m.a. til smitrakningarteymisins sem hefur með útsjónarsemi og fagmennsku í mannlegum samskiptum gert „aðdáunarverða“ hluti. Þá fengu íbúar Ölfuss einnig hrós frá Víði sem segir þá hafa sýnt hvernig samfélag sem verður fyrir því áfalli að þar greinist hópsýking geti tekið á hlutunum saman.
„Að öðru og kannski ekki alveg jafn jákvæðu,“ sagði Víðir svo. „Við höfum oft talað um að veiran sé andstæðingurinn í þessu, það ætlar enginn að smitast og það ætlar enginn að smita annan. En nú erum við að fá upplýsingar um það að börn og fullorðnir sem hafa tengst hópsmitum og lent í því að vera hluti af þeim, eru að fá öfgafull skilaboð, rasísk og mjög ljót skilaboð. Þau eru líka að verða fyrir nánast einelti úti á götu. Eingöngu, virðist vera, vegna þess að þau koma frá tilteknu landi.
Ekki dæma alla fyrir eitthvað sem örfáir hafa gert,“ sagði Víðir með nokkrum þunga. „Við berum öll
ábyrgð, við þurfum öll að taka þátt og við erum í þessu saman, sama hvaðan við komum, þá erum við öll almannavarnir.“Í lokaorðum sínum á fundinum horfði Víðir til nánustu framtíðar. „Nú er vor í lofti og maður sér fólk úti í garði að sinna vorverkunum. Við sem samfélag þurfum að sinna sömu vorverkum og við gerðum i fyrra.“ Þau verk snúa að persónubundnum sóttvörnum og passa okkur að missa ekki „þá góðu stöðu sem við erum í núna á lokametrunum.“
Hann sagði yfirvöld vonast til þess að eftir um tvo mánuði verði búið að ná góðri stöðu í bólusetningum. Þangað til þyrftum við að halda út. „Tveir mánuðir,“ sagði hann með áherslu. „Tveir mánuðir eru ekki neitt. Við erum búin að vera í þessu í fjórtán mánuði og tveir mánuðir í viðbót þar sem við tökum vel á þessu, að klára þetta mál, fylgja þessu alla leið, verður ekkert mál fyrir okkur.“