Icelandair Group hefur fengið alls 3,7 milljarða króna í svokallaða uppsagnarstyrki sem veittir hafa verið úr ríkissjóði frá því í maí í fyrra. Ekkert annað fyrirtæki hefur fengið nálægt því svo háa uppsagnarstyrki.
Styrkirnir hjálpa fyrirtækjum að segja upp fólki án mikils kostnaðar fyrir þau vegna greiðslu uppsagnarfrests. Yfirlýst markmið þeirra er að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin. Styrkirnir standa þeim fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 75 prósent tekjutapi til boða.
Alls hefur Icelandair Group nýtt sér úrræðið vegna uppsagna á 1.918 starfsmönnum.
Sá aðili sem hefur fengið næst hæstu upphæðina í uppsagnarstyrki eru Flugleiðahótel, sem eru í 25 prósent eigu Icelandair Group. Þangað hafa farið um 627 milljónir króna úr ríkissjóði. Iceland Travel, ferðaskrifstofa í eigu Icelandair Group hefur fengið 151 milljón króna í uppsagnarstyrki, Bílaleiga Flugleiða hefur fengið 139 milljónir króna og Flugfélag Íslands, sem er var rennt saman við Icelandair Group fyrir skemmstu, hefur fengið 83 milljónir króna.
Bláa lónið fékk 603 milljón króna
Bláa Lónið fékk þriðju hæstu einstöku uppsagnarstyrkina, alls um 603 milljón króna vegna uppsagna 550 manns. Fjórða fyrirtækið sem fékk uppsagnarstyrki yfir hálfri milljón króna var Íslandshótel hf., sem fékk alls 593 milljónir króna fyrir að segja upp alls 468 starfsmönnum.
Hótel eru raunar fyrirferðamikil á listanum. Centerhotels fékk 266 milljónir króna, Keahótel 203 milljónir króna, Fosshótel 155 milljónir króna og Hótel Saga 114 milljónir króna.
Rútufyrirtækið Allrahanda, sem rekur vörumerkin Grey Line og Airport Express, fékk 191 milljónir króna og tvö félög tengd Kynnisferðum, sem reka vörumerkið Reykjavik Excursions, fengu samtals um 193 milljónir króna.
Önnur fyrirtæki á listanum sem fengu yfir 100 milljónir króna eru öll tengd ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti.
Endurskipulagning ferðaþjónustu eftir
Í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabanki Íslands birti í síðustu viku, kom fram að sá greiðsluvandi sem ferðaþjónustufyrirtæki hafa glímt við undanfarið ár vegna tekjufalls gæti breyst í skuldavanda hjá stórum hluta greinarinnar þegar fyrirtækin byrja að greiða af lánum sínum á ný.
Samkvæmt Seðlabankanum hafa skuldir ferðaþjónustufyrirtækja aukist nokkuð í kjölfar farsóttarinnar og var útlánavöxtur kerfislega mikilvægra banka til ferðaþjónustu rúmlega ellefu prósent á síðasta ári. Stór hluti aukningarinnar skýrist af frestuðum afborgunum og vaxtagreiðslum á árinu, auk nýrra stuðnings- og brúarlána.
Til viðbótar hafði gengislækkun krónunnar á árinu þau áhrif að lán í erlendum gjaldeyri hækkuðu í krónum talið en þau nema tæplega þriðjungi útlána til ferðaþjónustu. Sú hækkun jók einnig á skuldsetningu ferðaþjónustufyrirtækjanna.
Seðlabankinn segir að gjaldþrot í greininni hafi enn sem komið er verið fátíð og endurskipulagning skulda fyrirtækja í greininni eiga að stórum hluta eftir að fara fram. „Nú þegar hillir undir endalok faraldursins er brýnt að fara að huga að því verkefni,“ segir í ritinu.