Dagný Jónsdóttir, aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar um samhæfingu mála og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, er formaður starfshóps gegn hatursorðræðu sem mun hefja störf í næstu viku.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ákvað í síðasta mánuði að skipa starfshóp gegn hatursorðræðu til að bregðast við vísbendingum um vaxandi hatursorðræðu í íslensku samfélagi.
Lenya á sæti í starfshópnum og er hún skipuð án tilnefningar af forsætisráðherra. „Ég mun beita mér fyrir því að fjölbreyttar raddir fái að heyrast við vinnu hópsins, þessi starfshópur þarf fyrst og fremst að gæta hagsmuna þeirra hópa sem verða fyrir hatursorðræðu og því mikilvægt að sjónarmið þeirra fái hljómgrunn í vinnunni framundan,“ segir Lenya í samtali við Kjarnann.
Kjarninn fjarlægði frétt sem unnin var upp úr viðtali við Lenyu sem birtist um miðjan apríl vegna rasískra ummæla sem skrifuð voru við deilingu fréttarinnar á Facebook-síðu Kjarnans.
Í viðtalinu ræddi Lenya einnig um rasísk ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra sem hann lét falla um Vigdísi Häsler í móttöku sem Framsóknarflokkurinn hélt í tilefni af Búnaðarþingi bændasamtakanna. Vigdís vildi fá forystufólk úr Framsóknarflokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plankaði“ á meðan að það hélt á henni. Við þessar aðstæður á Sigurður Ingi að vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“.
Sigurður Ingi baðst afsökunar og fundaði nokkrum dögum síðar með Vigdísi sem birti í kjölfarið færslu á Facebook þar sem hún sagði að þau hefðu átt „hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal“. Sagðist Vigdís hafa meðtekið afsökunarbeiðni Sigurðar Inga og að hún hefði upplifað hana sem einlæga. Málinu væri lokið af hennar hálfu. Sigurður Ingi hefur verið kærður fyrir brot á siðareglum Alþingis en hefur ekki tjáð sig meira um málið heldur aðeins vísað í afsökunarbeiðni sína á Facebook.
Starfshópurinn hefur störf í næstu viku
Nú hefur fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins verið skipuð formaður starfshóps gegn hatursorðræðu. Dagný sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn 2003-2007. Í dag starfar hún sem aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar um samhæfingu mála.
Í tilkynningu stjórnvalda sem send var út í apríl þegar tilkynnt var um ráðningu Dagnýjar segir að hún muni vinna að því að „samhæfa stefnu og aðgerðir í málaflokkum sem heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti. Meðal umfangsmikilla áherslumála ríkisstjórnarinnar sem snerta málefnasvið flestra ráðuneyta eru sjálfbærni, réttlát umskipti og aukin samkeppnishæfni“. Nú mun hún einnig gegna formennsku í starfshópi gegn hatursorðræður og er fyrsti fundur hópsins áætlaður næstkomandi þriðjudag, 28. júní. Ellefu aðalmenn og átta varamenn eiga sæti í starfshópnum, en hann skipa:
Aðalmenn:
Dagný Jónsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar, forsætisráðuneyti
Áshildur Linnet, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
Hákon Þorsteinsson, dómsmálaráðuneyti
Jón Fannar Kolbeinsson, Jafnréttisstofu
Lenya Rún Taha Karim, skipuð án tilnefningar, forsætisráðuneyti
Margrét Steinarsdóttir, Mannréttindaskrifstofu Íslands
Nichole Leigh Mosty, Fjölmenningarsetri
Ólafur Örn Bragason, embætti ríkislögreglustjóra
Rán Ingvarsdóttir, skipuð án tilnefningar, forsætisráðuneyti
Stefán Snær Stefánsson, mennta- og barnamálaráðuneyti
Þórður Kristjánsson, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Varamenn:
Anna Lilja Björnsdóttir, Jafnréttisstofu
Donata Honkowicz Bukowska, mennta- og barnamálaráðuneyti
Eyrún Eyþórsdóttir, embætti ríkislögreglustjóra
Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Mannréttindaskrifstofu Íslands
Kristín Jónsdóttir, dómsmálaráðuneyti
Kristín Ólafsdóttir, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, Fjölmenningarsetri
Stefán Daníel Jónsson, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
Var lofað góðu samráði við hagsmunahópa
Meginhlutverk hópsins verður að skoða hvort stjórnvöld skuli setja fram heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu.
Í því skyni verður starfshópnum falið að gera tillögur um útfærslu á aðgerðum sem miði að því að vinna gegn hatursorðræðu í íslensku samfélagi, til dæmis í formi vitundavakningarherferðar eða annarra aðgerða. Samráð verði haft við hagsmunasamtök í vinnu starfshópsins.
„Ég er fyrst og fremst þakklát að það hafi verið hlustað á kröfur þeirra hópa sem kölluðu eftir úrbótum í málefnum sem varða hatursorðræðu og að mér sé treyst fyrir setu í starfshópnum,“ segir Lenya í samtali við Kjarnann.
Að hennar mati samanstendur hópurinn af fagfólki en hún segir mikilvægt að haft verði ríkt samráð við hagsmunahópa.
„Þessi starfshópur er samansettur af fagfólki sem mun takast á við þetta flókna verkefni af fagmennsku og á lausnamiðaðan hátt, eins lengi og það sé haft gott samráð við viðeigandi hópa, eins og mér var lofað við skipun þessa hóps. Ég mun allavega beita mér fyrir því af fullum krafti að allar raddir sem hafa hagsmuna að gæta fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri innan hópsins og stuðla að ríku samráði,“ segir Lenya.