Franski ökuþórinn Jules Bianchi lést af áverkum sínum sem hann hlaut í japanska kappakstrinum í október á sjúkrahúsi í heimabæ hans Nice á dögunum. Útför hans var gerð í dag. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um slysið og þá hættur sem ökumenn leggja líf sitt til að þróa tækni fyrir almenning.
Fráfall Bianchi er það fyrsta í Formúlu 1-kappakstri síðan Ayrton Senna og Roland Ratzenberger fórust fyrir rúmlega 21 ári, kappaksturshelgina 1. maí 1994. Þá voru liðin 12 ár frá síðasta dauðsfalli í þessari vinsælustu mótaröð allra tíma.
Bianchi hafði glímt við mjög alvarlega höfuðáverka eftir slysið og komst aldrei til meðvitundar. Slysið varð þegar hann missti stjórn á kappakstursbíl sínum við erfiðar aðstæður á Suzuka-brautinni í Japan og flaug yfir malargryfju sem hefði átt að draga úr hraða hans. Áður hafði kappakstursbíll Adrian Sutil farið út af brautinni á sama stað og unnu brautarstarfsmenn að því að koma bíl Sutil í burtu. Þess vegna var krani inn á brautarsvæðinu sem Bianchi lenti í árekstri við.
Formúlu 1-bílar eru þannig byggðir að nær allur líkami ökumanna er varinn með hertu koltrefjaplasti sem hefur staðist strangar styrktarkröfur. Það eina sem hjúpur bílsins ver ekki er höfuð ökumannsins en þar lenti mesta höggið í árekstri Bianchi við kranann.
Formúla 1-mótaröðin hefur frá upphafi verið leiðandi í þróun búnaðar sem nýst hefur fyrir bíla í almenningseigu. Stærstu bílaframleiðendur heims keppast þar við að þróa besta mögulega búnaðinn sem svo á endanum nýtist í fólksbíla. Undanfarin 25 ár hefur öryggisbúnaður í bíla verið helsta afurð Formúlu 1, allt frá flóknum hemlunarbúnaði, yfir í fullkomnara ytra byrði bíla.
Eddie Jordan, fyrrum liðseigandi í Formúlu 1, lét hafa eftir sér í samtali við BBC Sports að hann teldi Bianchi hafa verið framtíðar heimsmeistara. „Við finnum sjaldan gimsteina eins og Lewis Hamilton, Ayrton Senna og Michael Schumacher. Jules hafði hæfileika til að komast í þann flokk.“
Jules Bianchi er 32. ökuþórinn sem ferst í Formúlu 1-kappakstri síðan mótaröðin hófst árið 1950.