Bandaríkin hafa gefið út sitt fyrsta kynhlutlausa vegabréf, samkvæmt tilkynningu sem barst frá utanríkisráðuneyti landsins í dag. Kynhlutleysi er táknað með bókstafnum X í vegabréfinu. Stefnt er að því að bjóða almennt upp á hlutlausa kynskráningu í vegabréfum þar í landi frá og með næsta ári.
AP-fréttastofan greinir frá þessu í dag og segir þetta mikinn áfanga í réttindabaráttu þeirra sem ekki skilgreina sig sem annað hvort karl né konu vestanhafs.
Ekki fylgdi tilkynningu stjórnvalda hver hefði fengið vegabréfið útgefið. Samkvæmt frétt AP neitaði ráðuneytið að tjá sig um hvort vegabréfið hefði verið útgefið fyrir Dönu Zzyym, intersex manneskju frá Kólóradó-ríki sem hefur háð baráttu fyrir því að fá gefið út vegabréf með hlutlausri kynskráningu allt frá árinu 2015, en af fréttinni má lesa að það þyki líklegt.
Hægt að fá kynhlutlaus vegabréf á Íslandi frá því í janúar
Bandaríkin feta með þessu skrefi í kjölfar nokkurra annarra ríkja sem hafa þegar byrjað að heimila hlutlausa kynskráningu á opinberum persónuskílríkjum. Ísland er eitt þeirra.
Eftir að lög um um kynrænt sjálfræði, sem voru samþykkt sumarið 2019, tóku gildi hefur verið heimilt óska eftir hlutlausri kynskráningu hjá Þjóðskrá. Þjóðskrá fékk 18 mánaða frest til þess að uppfæra kerfi sín og aðlaga þau að hlutlausri kynskráningu og í upphafi þessa árs, nánar til tekið 6. janúar, varð fyrst mögulegt að samþykkja slíkar skráningar.
Einstaklingar með hlutleysa kynskráningu, sem í þjóðskrá falla undir flokkinn „Kynsegin/annað“ hafa frá þeim degi getað sótt um að fá útgefin ný persónuskílríki, eins og vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini og fleira.
Samkvæmt ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði skal ávallt tákna hlutlausa skráningu kyns í vegabréfum með bókstafnum X.
Á meðal annarra ríkja sem bjóða þegnum sínum upp á hlutlausa kynskráningu hjá hinu opinbera og þar með í vegabréfum eins og öðrum opinberum persónuskílríkjum eru Argentína, Ástralía, Kanada, Danmörk, Indland, Malta, Nepal, Nýja-Sjáland, Portúgal og Pakistan.