Rússneski milljarðamæringurinn Dmitrí Pumpianskí hefur ekki getað borgað af bankaláni vegna lúxussnekkju sem hann hafði fest kaup á og verður hún því boðin upp. Þetta er fyrsta snekkja úr eigu rússneskra auðmanna sem fer á uppboð, segir fréttastofa Bloomberg, eftir að Rússar gerðu innrás í Úkraínu í febrúar. Í kjölfar innrásarinnar voru eignir Rússa víða um heim frystar, fjöldi lúxussnekkja þar á meðal.
Fyrst þessara snekkja til að fara á uppboð heitir Axioma. Lagt var hald á hana í Gíbraltar í mars. Gíbraltar er undir breskum yfirráðum. Snekkjan er metin á 63 milljónir punda, vel yfir 10 milljarða íslenskra króna. Í frétt BBC segir að líklegt sé að söluverðið verði lægra. Mikill áhugi er sagður fyrir kaupunum.
JP Morgan fór í mál við Pumpianskí vegna tæplega 3 milljarða króna láns sem hvílir á skútunni.
Skútan Axioma er sannarlega lúxusfley mikið. Á því eru fimm þilför, stór sundlaug og þrívíddar bíósalur svo fátt eitt sé nefnt.
Pumpianskí efnaðist á stáliðnaði. Þar til í mars á þessu ári stýrði hann stærsta framleiðanda stálröra í Rússlandi.