Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis á morgun, fimmtudag, þess fyrsta síðan 27. maí eða í 48 daga. Í ljósi smita sem greinst hafa innanlands á síðustu tveimur sólarhringum „má segja að staðan hér á landi sé varhugaverð,“ segir í tilkynningu frá almannavörnum. Í því ljósi er boðað til fundarins. Þar munu þeir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála varðandi framgang kórónuveirufaraldursins að undanförnu.
Í gær greindust fimm innanlandssmit. Allt var fólkið utan sóttkvíar. Þrennt var bólusett en tveir hinna smituðu voru hálfbólusettir.
Í fyrradag greindust tvö smit. Hinir smituðu voru báðir bólusettir og greindust utan sóttkvíar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í viðtali við RÚV að stökkbreytt Delta-afbrigði veirunnar hafi greinst hér þann dag. Enn á eftir að raðgreina smitin sem greindust í gær. Delta-afbrigðið er talið um 60 prósent meira smitandi en önnur afbrigði kórónuveirunnar. Það hefur breiðst út í Evrópu á síðustu vikum, m.a. á Spáni og í Portúgal.
Þórólfur sagði í samtali við mbl.is í dag að gera mætti ráð fyrir því að 3-5 bólusettir ferðamenn kæmu smitaðir til Íslands á degi hverjum. Bólusettir eru ekki lengur skimaðir við komuna til landsins. „Þá er það bara spurningin hvort þessi útbreidda bólusetning hér haldi almennilega,“ sagði Þórólfur við mbl.is. „Við vitum líka að þeir sem eru bólusettir geta tekið smit, þannig að þetta er ekki óvænt. Það sem við bindum vonir við er að þeir sem eru bólusettir og taka smit veikist ekki eins alvarlega og ef þeir væru óbólusettir. Erlendar rannsóknir sýna það í raun og veru. Við þurfum að skoða þetta aðeins í því ljósi og ég held að við eigum eftir að sjá aðeins fleiri svona smit á næstunni.“
Í tilkynningu frá almannavörnum í morgun var brýnt fyrir fólki að fara varlega „á næstu dögum“. Fram kom einnig að „sérstaklega mikilvægt“ væri að fara varlega í umgengni við viðkvæma einstaklinga sem gætu veikst alvarlega af COVID-19, jafnvel þótt að þeir séu bólusettir.