Arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands segir það vekja nokkra furðu hve lítið hafi farið fyrir kynningu breytingartillagna að aðalskipulagi Reykjavíkur fram til ársins 2040, í ljósi þess hve víðtækt samráð var haft um samningu aðalskipulagsins 2010-2030.
Í athugasemdum frá LHÍ um tillögur til breytinga á aðalskipulaginu, sem Hildigunnur Sverrisdóttir deildarforseti arkitektúrdeildar undirritar, segir að það veki einnig furðu að „miðað við þær mikilvægu og afgerandi breytingar“ sem lagðar séu til sé ekki kallað eftir „meira almennu og faglegu samráði og sterkara fræðilegu grunnlagi“.
„Það á ekki síst við á þar sem t.d. viðmið um íbúafjölda á hektara er tvö- og jafnvel þrefaldaður á þéttustu reitum. Skipulagið mun bæði hafa afgerandi áhrif á vistgæði þeirrar byggðar sem þar rís – en einnig hafa afgerandi áhrif á ásýnd borgarinnar,“ segir í umsögninni.
Þéttleiki á sumum reitum í talsverðu ósamræmi við markmið AR2030
Töluverðar athugasemdir eru gerðar við þau áform um þéttingu byggðar sem fyrirhuguð eru á einstaka uppbyggingarreitum í athugasemdinni frá arkitektúrdeild LHÍ. Þannig segir að það sé nú horfið frá því, sem hafi verið meginmarkmið í AR2030, að á nýju uppbyggingarsvæði í Vatnsmýri verði byggingar ekki hærri en 3-5 hæða. Þéttingarsvæði sem skilgreind séu í breytingatillögunni séu þess í stað „upp í 5-8 hæðir á mjög stórum reitum og önnur 9 hæðir og yfir“. Einnig segir að það megi „sæta nokkurri furðu“ að byggingar allt að átta hæðum séu ekki taldar til háhýsa.
Til viðbótar segir í umsögninni frá LHÍ að hugmyndir um þéttingarsvæði í kringum legu Borgarlínu í tillögum nýja skipulagsins séu „í talsverðu ósamræmi við það aðalskipulag sem samþykkt var árið 2014“ er varði viðmið um þéttleika og að „til að tryggja samfélagslega sátt til framtíðar hefði þurft víðtækari kynningu og samtal við íbúa og hlutaðeigandi aðila og fagaðila á borð við arkitekta um þá framtíðarsýn“ sem birtist í nýju tillögunum.
Sól, skuggar og vindur
Þá er það sagt „áhugavert að ekki virðist hafa verið leitað sérstaklega til sérfræðinga í dagsljósareikningum og útreikningum skuggavarps“ við vinnuna og að því sé „gjarnan haldið fram að íbúðabyggð á Íslandi ætti ekki að fara upp fyrir 3-5 hæðir til að halda opnum möguleikum fyrir að dagsljós berist á neðri hæðir fjölbýlishúsa.“
Sama gildi síðan um „fræðilegar og faglegar úttektir á veðurfari og áhrifum þess þegar kemur að svo háum byggingum í íslensku samhengi“ og bent er á að það sé „áhugavert nokk jafnan talið að óráðlegt“ að fara „yfir 3-5 hæðir í þéttu byggðalagi hérlendis.“
Fagleg ráðgjöf arkitekta hafi ekki mælt með jafn þéttri byggð og lagt sé upp með
Í umsögn Hildigunnar fyrir hönd LHÍ segir að hún hafi fengið þau svör á kynningarfundi um skipulagið þann 19. ágúst að arkitektastofan Stika hafi verið kölluð til faglegrar ráðgjafar um breytingarnar á aðalskipulaginu. Hún segir það vel, en að faglegur og fræðilegur grunnur undir skipulagið hefði að ósekju mátt vera meiri og víðtækari.
„Samantekt Stiku má finna sem viðauka við breytingartillöguna og ekki verður séð af henni að hún mæli fyrir svo þéttri og hárri byggð sem breytingartillagan leggur upp með og opnar í öllu falli fyrir,“ segir í umsögn Hildigunnar, sem bætir við að ráðgefandi vinna arkitektastofunnar virðist ekki hafa skilað sér í bindandi ákvæði um rýmisgæði, svo ýtrustu faglegu viðmiðum verði gætt við skipulag reita.