Gauti Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar Múlaþings, ætlar að sækjast eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum.
Áður hafði Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður flokksins í kjördæminu, lýst því yfir að hann vilji oddvitasætið á listanum, sem er að losna þar sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að hætta á þingi.
Kjarninn greindi frá því í janúar að Gauti væri að íhuga alvarlega eftir því að sækjast eftir þingsæti. Nú er sú ákvörðun orðin formleg. Í tilkynningu frá Gauta segir að hann telji að mikilvægt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins endurspegli sem best kjördæmið allt, hafi ólíkan og fjölbreyttan bakgrunn og innsýn í þau margbreytilegu viðfangsefni sem við er að eiga hvort heldur það er í fjölmennustu þéttbýliskjörnunum eða dreifbýlinu. „Í starfi mínu sem sveitarstjóri síðastliðin tíu ár, við markaðssetningu sjávarafurða og þar áður sem skólastjóri hef ég aflað aflað fjölbreyttrar og mikilvægrar reynslu sem ég tel að muni koma til góða nái ég kjöri.“
Sjálfstæðisflokkurinn er með tvo þingmenn í kjördæminu eins og er, þá Kristján Þór og Njál Trausta. Flokkurinn fékk 20,3 prósent atkvæða þar haustið 2017 sem var töluvert undir heildarkjörfylgi hans sem var 25,2 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn er samt sem áður stærsti flokkurinn í Norðausturkjördæmi eins og er þar sem hann fékk 88 atkvæðum meira en Vinstri græn þegar síðast var talið upp úr kjörkössunum.