Niðurstaða stærstu rannsóknar hingað til á því hvort grímur gagnist raunverulega til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 er sú að jú, þær gera það og einnota grímur enn meira en þær sem eru úr taui. Rannsóknin gekk einnig út á að kanna áhrif hvatningar til grímunotkunar og fræðslu. Slíkt inngrip skilar sér, að sögn höfunda rannsóknarinnar, og getur þar með aukið lýðheilsu í samfélögum.
Rannsóknin náði til yfir 340 þúsund manns í um 600 þorpum í Bangladess. Íbúum þorpanna var ýmist boðið að fá að gjöf einnota grímur, taugrímur eða engar grímur yfir höfuð.
Vísindamennirnir rannsökuðu svo áhrifin á hegðun fólks í margmenni, m.a. í moskum, á mörkuðum og stöðum þar sem fólk kemur saman til að drekka te. Þátttakendurnir voru spurðir um COVID-19 einkenni sín og þeir sem þau höfðu fóru í frekari rannsóknir.
Niðurstaðan var sú að í þorpunum þar sem grímum hafði verið dreift voru einkennasmit 9,3 prósent færri en í viðmiðunarþorpunum þar sem engum grímum var dreift. Hlutfallið var enn lægra meðal þorpsbúa sem höfðu fengið einnota skurðgrímur eða 11 prósent.
Eldra fólk hafði mestan ábata af því að nota grímur. Fjöldi sýkinga sextugra og eldri sem báru einnota grímur var 35 prósent minni en sambærilegs aldurshóps þar sem engum grímum hafði verið dreift.
Niðurstaða rannsóknarinnar var birt af mannúðarsamtökunum Innovations for Poverty Action nýverið en hana á enn eftir að ritrýna. Aðalhöfundar hennar eru Laura Kwong, aðstoðarprófessor við Berkeley-háskóla, Jason Abaluck og Mushfiq Mobarak í Yale-háskóla og Steve Luby og Ashley Styczynski frá Stanford-háskóla.
Niðurstöðurnar eru sagðar sérstaklega mikilvægar fyrir þau lönd sem enn þurfa fyrst og fremst að reiða sig á samfélagslegar takmarkanir í baráttunni við COVID-19 þar sem bóluefni er þeim ekki enn almennt aðgengilegt. En þær ættu líka að gagnast öðrum samfélögum til að taka ákvarðanir um hvort og þá hvar eigi að hafa grímuskyldu eða að minnsta kosti hvetja fólk til að bera þær.
„Spurningin sem við vorum að reyna að svara var: Ef þú dreifir grímum og færð fólk til að nota þær, gagnast þær?“ segir Mushfiq Mobarak, hagfræðiprófessor við Yale-háskóla, sem er einn aðalhöfundur rannsóknarinnar.
Mobarak og samstarfsmenn hans hófu rannsókn sína í Bangladess í nóvember í fyrra. Þeir völdu þorp af handahófi þar sem grímur voru gefnar, rétt notkun þeirra kennd og hvatt var til grímunotkunar almennt í samfélaginu.
Meðal þeirra rúmlega 178 þúsund einstaklinga sem voru hvattir til að nota grímur jókst notkunin um 30 prósent og sú hegðun hélst í að minnsta kosti tíu vikur. Mobarak segir að þótt árangurinn af grímunotkuninni sem í ljós kom við rannsóknina kunni að virðast lítill verði að muna að hann fékkst með því að auka grímunotkun um 30 prósent. „Ímyndið ykkur ef hún myndi aukast um 100 prósent,“ segir hann í samtali við NBC sjónvarpsstöðina um málið.