Fjórmenningarnir sem lögregla handtók í gær og afstýrði þannig hættuástandi eru grunaðir um að hafa staðað að undirbúningi hryðjuverka. Tveir þeirra, Íslendingar á þrítugsaldri, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald, annar í eina viku og hinn í tvær vikur. Rannsókn lögreglu snýst meðal annars um að kanna hvort mennirnir tengjast öfgasamtökum.
Þetta er meðal þess sem fram kom á upplýsingafundi lögreglunnar vegna aðgerða sérsveitar lögreglu af mönnunum í gær.
„Samfélag okkar er öruggara en það var, “ sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á fundinum. Ásamt honum voru Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, og Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá Héraðssaksóknara, til svara á fundinum.
Rannsóknin hefur staðið yfir í nokkrar vikur og nýlegar upplýsingar vöktu grun um að búast mætti við hryðjuverkaárás á stofnanir samfélagsins. Karl Steinar sagði að ýmsar stofnanir samfélagsins væru undir. Aðspurður hvort árásirnar hefðu átt að beinast gegn Alþingi og lögreglu svaraði hann: „Það má ætla það.“
Grunaðir um vopnaframleiðslu með þrívíddarprenturum
Lögreglan handtók í gær fjóra einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við yfirstandandi rannsókn. Samkvæmt tilkynningu frá ríkislögreglustjóra er rannsóknin í höndum embættis ríkislögreglustjóra sem hefur það hlutverk að rannsaka öll þau brot sem snúa að landráði, broti gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Rannsóknin snýr meðal annars að skipulagðri glæpastarfsemi og viðamiklum vopnalagabrotum.
RÚV greindi frá því í hádeginu að fjórmenningarnir væru grunaðir um framleiðslu vopna og taldir hættulegir. Vopnaframleiðslan fór fram með þrívíddarprenturum.
Fram kom í máli Karls Steinars að lögreglan hefur lagt hald á tugi skotvopna og þúsundir skotfæra. Þá eru mennirnir grunaðir um framleiðslu og sölu skotvopna, sum þeirra hálfsjálfvirk. Rannsókn lögreglu felst meðal annars í því að komast að því hvað hefur orðið um vopnin sem mennirnir hafa framleitt. Auk þess er verið að kanna hvort vopn hafa verið flutt til landsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn af þessu tagi fer fram hér á landi. Þjóðaröryggisráð hefur verið upplýst um rannsóknina en hefur ekki komið saman til fundar enn sem komið er.