Flóttamannareglur Evrópusambandsins (ESB) hafa brugðist vegna gríðarlegs fjölda fólks sem flýr stríðið í Sýrlandi og ófrið í Mið-Austurlöndum og Afríku. Slíkur fjöldi flóttafólks hefur ekki sést áður í Evrópu en hefur um leið reynt á þolinmæði einstakra aðildarríkja ESB gagnvart reglum um meðhöndlun flóttafólks. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri frétt frá Reuters-fréttastofunni um flóttamannavanda Evrópu.
Ungverjar hafa til dæmis brugðið á það ráð að loka landamærum sínum og reisa girðingu á landamærum sínum gagnvart Serbíu. Innan Schengen svæðisins eiga öll landamæri að vera opin en undanfarna mánuði hafa ýmis Evrópulönd hert eftirlit á landamærum sínum í takti við aukin fjölda flóttafólks. Ísland er aðili að Schengen-samstarfinu.
Vegna óblíðrar móttöku í Ungverjalandi stefndu fjölmargir flóttamenn þaðan til Þýskalands og Austurríkis með lestum í gær. Þúsundir karla, kvenna og barna fóru skilríkjalaus yfir landamæri til Þýskalands, þangað sem fjölmargir flóttamenn sækja. Þjóðverjar eru meðal þeirra sem ætla að taka á móti flestum flóttamönnum.
Á sameiginlegum blaðamannafundi í Berlín hvöttu Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, framkvæmdastjórn ESB til að útbúa áætlun svo Evrópulönd ættu auðveldara með að vinna úr flóttamannavandanum. „Það er tvennt sem við verðum að vera skýr með — framkvæmdastjórn ESB verður að lista upp örugg upprunalönd flóttafólks. Og við verðum að halda áfram að vinna að samstilltum starfsháttum í framtíðinni,“ sagði Rajoy.
Barn sefur á lestarstöð í Vín eftir ferðalag frá Búdapest á leið til Þýskalands. (Mynd: EPA)
Talsmaður lögreglunnar í Austurríki sagði Reuters-fréttastofunni að, í samræmi við reglur ESB, væri öllum þeim sem ekki höfðu þegar sótt um hæli í Ungverjalandi hleypt í gegn — en gríðarlegur fjöldi fólksins varð til þess að öllum var einfaldlega hleypt í gegn.
„Guði sé lof fyrir að enginn bað um vegabréfið… Engin lögregla, ekkert vandamál,“ lét hinn 33 ára Khalil hafa eftir sér í Vín. Hann er enskukennari frá Kobani í Sýrlandi þar sem Íslamska ríkið hefur komið sér vel fyrir. Eiginkona hans hélt á kornungri dóttur þeirra sem er veik; hóstaði og grét á lestarstöð í Vín.
Khalil sagðist hafa keypt lestarmiða fyrir fjölskyldu sína í Búdapest alla leið til Hamborgar þar sem hann trúir því að vel verði tekið á móti þeim eftir erfitt ferðalag yfir Balkanskaga og í gegnum Ungverjaland. „Sýrlendingar kalla Merkel „Mamma Merkel“ (þ. Mama Merkel),“ segir hann. Merkel hefur enda verið sá leiðtogi Evrópuríkja sem sýnt hefur flóttafólkinu hvað mesta samúð.
Samkvæmt heimildum Reuters var lestin frá Vín til Hamborgar stöðvuð í Passau þar sem lögregluþjónar í skotheldum vestum bað flóttafólkið um að fylgja sér á lögreglustöð þar sem það yrði skráð.