Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Eflingu í kosningu meðal félagsfólks þann 15. febrúar næstkomandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðmundi sem birt er á Vísi.
„Ég hef setið í stjórn Eflingar allt frá árinu 2018. Aðra reynslu af stjórnun hef ég í gegnum störf mín sem forstöðumaður íþróttamiðstöðva. Ég starfaði og gegndi hlutverki trúnaðarmanns hjá Grey Line Allra handa um árabil. Nú starfa ég hjá verktakafyrirtækinu Faxaverk sem vörubílstjóri ásamt annarri vélavinnu.“
„Efling-stéttarfélag er næst fjölmennasta stéttarfélag landsins með hátt í 30.000 ófaglærða félagsmenn þegar félagið er fjölmennast á sumrin. Þar af er ríflega helmingur af erlendum uppruna. Brýnt er að til formennsku í félaginu veljist Eflingarfélagi með haldgóða reynslu af verkamannastörfum, félags- og stjórnunarstörfum innan stéttarfélagsins. Hann þarf að vera tilbúin til að axla ábyrgð og hafa hugrekki til að takast á við erfiðar áskoranir.
Með reynslu minni af vinnumarkaði og stjórnun Eflingar tel ég að ég hafi til að bera hvort tveggja. Skemmst er að minnast baráttu minnar gegn yfirhylmingu fyrrverandi formanns gagnvart arfalélegum stjórnarháttum fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins. Hegðun framkvæmdastjórans hefur ekki aðeins kostað félagið dýrmætan þekkingarleka vegna óeðlilega mikillar starfsmannaveltu heldur tugi milljóna króna í starfslokasamningum. Ótalin er vanlíðan núverandi og fyrrverandi starfsmanna og fjölskyldna þeirra,“ segir í tilkynningunni.
Guðmundur segir að ef honum verði trúað fyrir formennsku í Eflingu muni hann starfa af einhug fyrir alla Eflingarfélaga, innlenda sem erlenda, og stuðla að jafnlaunastefnu.
„Einnig mun ég vinna að þeirri nýbreytni að deildarskipta félaginu með það að leiðarljósi að starfsmenn innan hvers geira Eflingar eins og t.d. leikskólastarfsfólk, hópferðabílstjórar, starfsfólk í umönnun geti stofnað stjórnir innan sinna raða og haft áhrif á sína eigin kjarasamningagerð. Markmið með þessum áherslum er að efla stéttarvitund innan Eflingar og einnig að stuðla að því að hópar geti sjálfir komið með beinni hætti að sínum kröfugerðum. Á endanum er það alltaf aðalstjórn Eflingar sem hefur úrskurðarvald.
Einnig mun ég fara yfir allar greiðslur úr sjóðum Eflingar og birta þær opinberlega,“ segir í tilkynningu Guðmundar.
Kjarninn greindi frá því í gær að Ólöf Helga Adolfsdóttir varaformaður Eflingar hefði ákveðið að bjóða sig fram til formanns stéttarfélagsins svo framboðin eru nú orðin tvö.