Gylfi Þór Sigurðsson, skærasta knattspyrnustjarna Íslands og leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, er sagður til rannsóknar hjá lögreglunni í Manchester á Englandi vegna meints kynferðisbrots gegn barni. mbl.is sagði frá þessu í morgun, fyrst íslenskra fjölmiðla og vísaði til heimilda sinna.
Knattspyrnufélagið Everton staðfesti í gærkvöldi að leikmaður liðsins væri til rannsóknar og hefði verið sendur í leyfi frá liðinu á meðan lögreglurannsókn stæði yfir, en breskir fjölmiðlar hafa að svo komnu máli ekki nafngreint leikmanninn og vísa til lagalegra ástæðna.
Samkvæmt fréttum breskra miðla er þó um að ræða 31 árs gamlan giftan mann, sem leikur reglulega með landsliði sínu. Getgátur voru í gær uppi um að Everton-leikmaðurinn, sem þá var enn ónefndur, gæti ef til vill einnig verið verið enski knattspyrnumaðurinn Fabian Delph, sem einnig er 31 árs. Delph, öfugt við Gylfa, lék hins vegar með Everton í æfingaleik um helgina, en Gylfi Þór tók engan þátt í því verkefni.
Sögusagnir hófust um helgina
Sögusagnir um að Gylfi Þór hefði verið handtekinn á föstudag hafa farið um á samfélagsmiðlum án staðfestingar yfir helgina, en í gær staðfesti lögreglan í Manchester og nágrenni að 31 árs karlmaður hefði verið handtekinn á föstudag í þágu rannsóknar málsins. Í kjölfarið var fjallað um málið í bresku pressunni og hafa miðlar á borð við Mirror, The Sun, Daily Mail sagt frá málinu. Síðar hefur verið fjallað um málið í fleiri miðlum til dæmis bæði Guardian og BBC.
Ekkert hefur komið fram í breskum fjölmiðlum um hvers eðlis meint brot er, eða hvenær það á að hafa átt sér stað, en þó vísar fleiri en einn miðill í ónafngreinda heimildarmenn sem segja ásakanirnar alvarlegar.
Löggjöf um kynferðisbrot gegn börnum er ströng í Bretlandi. Þannig geta tilraunir fullorðinna til þess að hafa samband við barn undir 16 ára aldri í kynferðislegum tilgangi verið saknæmar, jafnvel þó samskiptin nái aldrei lengra en yfir netið.
Fleiri fótboltamenn á Bretlandi hafa á síðustu árum verið til rannsóknar vegna samskipta við börn undir lögaldri. Nú síðast var það Leigh Griffiths, þrítugur framherji Celtic í Skotlandi, en hann var sendur í leyfi frá liði sínu í upphafi júlímánaðar á meðan lögregla rannsakaði skilaboð sem hann sendi 15 ára stúlku á Instagram. Þau skilaboð voru ekki einsdæmi. Skoska lögreglan skoðaði mál hans og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert saknæmt væri að finna í skilaboðunum.
Það mál sem hefur þó vakið mesta athygli á umliðnum árum en mál fyrrverandi enska landsliðsmannsins Adam Johnson. Hann var árið 2016, er hann var 28 ára gamall og spilaði með Sunderland, sakfelldur fyrir kynferðisleg samskipti við 15 ára gamla stúlku, en hann játaði fyrir dómi að hafa kysst stúlkuna. Hann neitaði því að samskipti þeirra hefðu gengið lengra.
Johnson var dæmdur í sex ára fangelsi. Hann afplánaði þriggja ára dóm og losnaði úr fangelsi árið 2019.
Knattspyrnusamband Íslands fylgist með
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, hefur rætt málið við fjölmiðla hér á landi í morgun. Hún segir við mbl.is að hún hafi ekki fengið neina staðfestingu á því að málið snúist um Gylfa.
„Það sem við lítum á sem staðfestar upplýsingar er fréttatilkynning frá ensku lögreglunni og svo Everton, þar sem ekki er nafngreindur leikmaður. Þannig við bíðum eftir frekari upplýsingum,“ sagði Klara við mbl.is.
Ríkisútvarpið segist hafa heimildir fyrir því að mikil umræða sé málið innan forystu KSÍ.