Önnur þeirra langreyða sem skip Hvals hf, Hvalur 8, kom með að landi í gær var með tvo skutla í sér. Annar þeirra hæfði bægsli og sprakk sprengiskutullinn, sem á að aflífa dýrin strax, ekki. Hinn var í kviði hennar. Um kvendýr var að ræða og reyndist hún kelfd.
„Við höfum enn einu sinni á þessari hvalveiðivertíð orðið vitni að skoti sem geigar,“ segir Arne Feuerhahn, framkvæmdastjóri sjávarverndarsamtakanna Hard to Port sem fylgst hafa náið með veiðunum í ár og áður í tvígang myndað hvali með skutlana enn í sér, ósprungna. Arne telur að dýrið hafi án efa þjáðst mikið. Rannsóknir sýna að springi skutull ekki geti það lengt dauðastríð hvalsins um margar mínútur.
Langreyðurin var dregin á land og það fyrsta sem var gert, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Hard to Port, var að fjarlægja sprengiskutulinn úr henni. Þá var hafist handa við að gera að henni og eftir að skurðurinn var nokkuð á veg kominn komu innyfli dýrsins í ljós. Arne segir tvo fulltrúa, að því er hann telur eftirlitsaðila, hafa sýnt legi kýrinnar mikinn áhuga og farið fram á að það yrði skorið upp. Þá hafi komið í ljós fóstur, um metri að lengd. Reynt hafi verið að koma í veg fyrir að samtökin næðu myndum af fóstrinu og það fjarlægt í skyndi.
„Miðað við hvar seinni skutullinn lenti þá gæti verið að hann hafi ekki aðeins drepið hið fullorðna dýr heldur einnig ófæddan kálf hennar,“ segir Arne. „Það var erfitt að verða vitni að þessu, jafnvel fyrir okkur sem höfum fylgst með þessum veiðum lengi.“
Þetta er langt í frá í fyrsta sinn sem kefld kýr er veidd. Það gerðist til dæmis ítrekað á vertíðinni sumarið 2018, að minnsta kosti ellefu sinnum. „Það er mjög líklegt að kelfdar kýr séu veiddar,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávar- og atferlisvistfræðingur, í samtali við Kjarnann. „Þær eru líklega um hálfgengnar eða meira þegar þær eru veiddar.“
Það skýrist af því að þær bera á 2-3 ára fresti að jafnaði. Fengitími þeirra er í desember og burður í nóvember eftir ellefu mánaða meðgöngu. Kálfurinn er á spena í um sex mánuði áður en hann er vaninn undan.
Samkvæmt lögum og reglum um hvalveiðar er bannað að veiða hvalkálfa, hvali á spena og kvenkyns hvali sem kálfar eða hvalir á spena fylgja. Hins vegar er ekki bannað að veiða kelfdar hvalkýr samkvæmt núgildandi lögum.
Edda Elísabet segir það „ekki möguleika“ að velja á milli kynja eða aldurs fullvaxinna dýra þegar veitt er.
Langreyður er annað stærsta dýr jarðar á eftir steypireyði. Langreyður er almennt talin farhvalur sem ferðast í átt að heimskautum á vorin og til baka á hlýrri svæða á haustin. Hafið umhverfis Ísland eru einar helstu fæðuslóðir langreyðar í Norður Atlantshafi.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði við Kjarnann í gær, spurð um skotin tvö sem þá var vitað að hefðu geigað, að það væri skýrt í sínum huga að „ef atvinnugreinar, sem byggja á dýrahaldi eða veiðum, geta ekki tryggt mannúðlega aflífun dýra – eiga þær sér enga framtíð í nútímasamfélagi“.
Hún sagði að ekki yrði nógu mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að dýr séu aflífuð á mannúðlegan hátt við veiðar. Lög og reglur um slátrun dýra í sláturhúsum séu skýr og kveði á um að aflífun sé skjót og án þjáningar. „Um aflífun hvala liggja ekki fyrir nægar upplýsingar til að segja til um hvort hún sé mannúðleg eða ekki,“ heldur hún áfram. „Rannsókn sem unnin var fyrir Fiskistofu árið 2015 á aflífun 50 langreyða bendir til að óásættanlega stór hluti hvala sem eru veiddir í atvinnuskyni heyi langdregið dauðastríð. Mikilvægt er að skera úr um þetta með því að afla betri gagna.“
Svandís benti á að við veiðar væri aldrei hægt að tryggja að aflífun eigi sér stað við fyrsta skot, hvort sem verið sé að veiða hvali, fugla eða hreindýr. Verklagsreglur við hvalveiðar kveði þó skýrt á um að ef skot geigar skuli draga hval að borði og aflífa sem fyrst með skoti í heila.
„Hvorki ráðuneytið, né undirstofnarnir þess, hafa upplýsingar um hvort svo sé gert. Því þarf að breyta og þess vegna hef ég sett í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð sem skyldar þau sem hafa leyfi til stórhvalveiða að tilnefna einn úr áhöfninni sem dýravelferðarfulltrúa.“
Samkvæmt drögunum skal hann bera ábyrgð á því að rétt sé staðið að velferð hvala við veiðar, með því að halda skrá yfir allar aðgerðir er varða veiðarnar, mynda þær á myndband og skrá þær niður. Þessum gögnum skal svo komið til eftirlitsdýralæknis eftir hverja veiðiferð og skal hann ganga úr skugga um að ákvæði laga um velferð dýra hafi verið fylgt. Komi eitthvað þar í ljós sem bendir til þess að ákvæði laga um velferð dýra séu ekki virt er það á hendi Matvælastofnunar að meta það hvort vísa skuli málinu til lögreglu.
„Ég held að við höfum safnað nægum sönnunargögnum,“ er haft eftir Arne í tilkynningu Hard to Port í morgun. „Það er enginn vafi að veiðar á þessum stóru sjávarspendýrum brjóta gegn lögum og reglum um dýravelferð. Myndefni okkar talar fyrir sig sjálft og við erum tilbúin að afhenta það ábyrgum yfirvöldum, fari þau fram á það.“