Reykjavíkurborg hefur hætt við að borga leikskólastarfsmönnum 75 þúsund króna launaauka fyrir að hvetja vini eða ættingja til að koma til starfa í leikskólum borgarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni í dag.
Þar segir að ákveðið hafi verið að leggja tillöguna til hliðar „en leggja því meiri kraft í að þróa aðrar hugmyndir eins og nýja auglýsingaherferð, efla íslenskukennslu og bæta móttöku nýliða, þróa aðgengilegra umsóknarkerfi, auka greiningarvinnu, efla stuðning við einstaka leikskóla, og samstarf við ráðningastofur og Háskóla Íslands.“ Þá verði leitað leiða til að hlúa betur að starfsumhverfinu til að draga úr starfsmannaveltu.
Kjarninn greindi fyrstur miðla frá því í gær að Reykjavíkurborg ætlaði sér að ráðast í nokkrar aðgerðir til þess að reyna að laða fólk að störfum á leikskólum, meðal annars nýja auglýsingaherferð og verkefni sem felst í að greiða starfsmönnum leikskóla fyrir að fá vini og ættingja til starfa í skólunum. Alls er um að ræða 75 þúsund króna launaauka sem greiddur er út þegar vinurinn eða ættinginn er búinn að starfa í þrjá mánuði á leikskóla.
Áætlaður kostnaður við launaaukann nam fimm milljónum króna af þeim 20 milljón krónum sem borgarráð samþykkti á fimmtudag að ráðstafa til aðgerða sem ætlað er að fjölga starfsmönnum á leikskólum borgarinnar.
Í tillögum frá skóla- og frístundasviði sem lagðar voru fram af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í borgarráði sagði að fyrirhuguð fjölgun leikskólaplássa á næstu árum fæli í sér að fjölga þurfi starfsmönnum á leikskólum um 250-300 næstu 3-4 árin. Búast mætti við því að það verði krefjandi, þar sem ekki hafi tekist að fullmanna leikskóla borgarinnar í haust.
Mikið gagnrýni
Áformin um að borga starfsfólki til að hvetja vini og ættingja til að starfa á leikskólum voru harðlega gagnrýnd víða.
Félag leikskólakennara sagði til að mynda í stöðuuppfærslu á Facebook að sú tillaga „að búa til Tupperware píramída hvatningu vegna ráðninga starfsfólks í leikskóla“ væri langt því frá líkleg til þess að ráðast á rót mönnunarvanda í leikskólum.
Í færslu félagsins sagði að stærsta verkefni sveitarfélaga væri að fjölga leikskólakennurum og hafi lengi verið. „Leikskólastigið hefur þróast hratt sem skólastig. Ákvarðanir samfélagsins um að taka sífellt inn yngri og yngri börn án þess að hugsa málið fyllilega til enda hefur aukið á vandann, aukið mönnunarþörf og hægt á hlutfallslegri fjölgun leikskólakennara þrátt fyrir mikla fjölgun í leikskólakennaranámi undanfarin ár.“